Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 16:39:44 (2368)

2003-12-02 16:39:44# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. alþm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttir fyrir að leggja þetta mál fram og að mörgu leyti að vinna það brauðryðjendastarf sem hún hefur innt af hendi á Alþingi síðustu vikurnar. Óhætt er að fullyrða að Alþingi Íslendinga er ríkara eftir að hafa fengið að njóta krafta hennar síðustu vikur og okkur öllum sem hér vorum inni var það, held ég, ógleymanleg stund þegar hún steig hér í pontu fyrst íslenskra og mælti á táknmáli við þingsetninguna í haust. Það var ákaflega eftirminnileg og skemmtileg stund og markaði ákveðin spor bæði í sögu Alþingis og íslenska þjóðmálaþróun að því leytinu að vekja athygli og varpa ljósi á réttindi þeirra fjölmörgu hópa sem eru fyrir utan hina hefðbundnu meginstrauma ýmissa hluta vegna, hvort sem það er út af fötlun eða einhverju öðru.

Frv. það sem hér er rætt flytur hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir ásamt mörgum öðrum þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna, helmingi þingmanna Samf., fjölmörgum þingmönnum Vinstri grænna og Frjálsl. Það er í rauninni eftirtektarvert og dapurlegt að enginn þingmanna stjórnarflokkanna skuli hafa séð sér fært að styðja við bakið á þessu stórmerkilega máli og taka þátt í að marka þau spor á Alþingi að berjast fyrir sjálfsögðum réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, eins og tekið er á í þessu frv. til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta máli heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Þetta er mál sem í tímans ljósi verður litið á sem sjálfsagt mannréttindamál og örugglega munu margir furða sig á því af hverju þetta hafi ekki verið samþykkt fyrir löngu síðan og það bundið í íslensk lög að íslenska táknmálið --- eða eins og segir í 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Íslenska táknmálið er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og skal íslenska ríkið hlúa að því og styðja.``

Svo er þessi lykilsetning, með leyfi forseta:

,,Íslenska táknmálið er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í millum og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir tala`` --- þ.e. íslenska táknmálið eða íslensku.

Þetta er kjarni málsins, virðulegi forseti.

Hv. 1. flm. vitnaði hér til orða norska málvísindamannsins Terje Basilier í upphafi og römmuðu þau orð inn að mörgu leyti um hvað þetta mál snýst allt saman, hvað þetta er í rauninni sjálfsagt mál og hvað það er sjálfsagt mál að táknmál, íslenskt táknmál, sé viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, þ.e. sem þeirra fyrsta mál.

Ég ætla að endurtaka þessa góðu tilvitnun sem kom fram í máli 1. flm. Hefst hér sú stutta og snjalla tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn ... en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.``

Þetta er kjarni málsins, frú forseti.

Það sem liggur fyrir í þessu frv. til laga er heildstæð réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem tala íslenskt táknmál. Frv. er mjög vel unnið og ítarlegt að því er virðist ásamt góðri greinargerð sem fylgir því mjög vel úr hlaði og upplýsir okkur fáfróða um hvað er á ferðinni, um hvað íslenskt táknmál sé, hvað það er mikilvægt fyrir þá sem það tala og hve mikið hagsmunamál fyrir þá að þetta mál nái fram að ganga og verði með þessum hætti bundið í lög.

Fskj. I sem fylgir frv. er sérstaklega þakkarvert. Það er eftir Svandísi Svavarsdóttur og er að því hér kemur fram tekið af vísindavef Háskóla Íslands. Þar útskýrir Svandís Svavarsdóttir fyrir okkur hinum sem tölum ekki táknmálið, höfum það ekki að móðurmáli, notum það ekki og kunnum það ekki, hvað táknmál sé almennt. Eins og kemur hérna fram halda kannski margir fljótt á litið að táknmálið sé alþjóðlegt mál og eins í öllum löndum veraldar, staðlað tungumál sem hefði verið fundið upp af einhverjum og væri alls staðar eins. En svo er að sjálfsögðu ekki þegar grannt er skoðað. Þetta er lifandi og sérstakt tungumál sem þróast með sínum hætti á því málsvæði sem það er talað.

[16:45]

Eins og fram kemur í grein Svandísar geta verið ýmiss konar mállýskur innan eins lands, innan eins málfélags, og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna hérna í upplýsandi kafla í þessu fylgiskjali frá Svandísi sem heitir ,,Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt táknmál fyrir heyrnarlausa?`` Hún spyr þessa á vísindavef Háskóla Íslands og svarar sjálf:

,,Táknmál eru sjálfsprottin mál sem hafa þróast í samfélagi heyrnarlausra manna alls staðar í heiminum. Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur sérstakt fyrir hvert land. Í sumum löndum er jafnvel mállýskumunur á táknmáli milli landsvæða. Skyldleiki táknmálanna er oft ólíkur skyldleika raddmálanna í viðkomandi löndum. Til dæmis er bandaríska táknmálið talið töluvert skylt því franska en nánast ekkert skylt því enska. Heyrnarlaus Bandaríkjamaður á auðveldara með að tala við heyrnarlausan Frakka en heyrnarlausan Breta!``

Eins er þar rakin, frú forseti, sú stórmerka saga sem er á bak við táknmálið. Eins dæmalaust og það kannski hljómar í okkar eyrum hér á friðsæla Íslandi í dag var táknmálið bannað í 100 ár. Að því er kemur fram í greinargerðinni varð það ekki viðurkennt t.d. á Norðurlöndunum fyrr en á árabilinu 1975--1980, eins og hér segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Táknmál var bannað í u.þ.b. 100 ár en þennan tíma kalla heyrnarlausir einangrunartímabilið. Þessi ákvörðun var tekin í Mílanó árið 1880 á ráðstefnu heyrnleysingjakennara víðs vegar að úr heiminum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að samþykkja að beita svokallaðri ,,oral``-stefnu eða raddmálsaðferð við menntun heyrnarlausra. ,,Oral``-stefnan felst í því að heyrnarlausir og heyrnarskertir læra að lesa af vörum og læra að tala með hjálp kennara án þess að nota táknmál.``

Nú er hins vegar svo komið í sögu þeirra og sögu okkar og þróun þessa tungumáls að það er orðið viðurkennt og það er hægt að fullyrða, án nokkurs vafa, að þetta frv. um íslenska táknmálið er eitt af merkari málum sem liggja fyrir þessu þingi. Þetta nýkjörna Alþingi mundi reisa sér mjög glæsilegan minnisvarða með því að samþykkja það og tryggja þannig að íslenska táknmálið sé fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og réttarstaða þess bætt að öllu leyti. Sérpartur af þessu máli öllu saman er réttindaskráin sem hér er upptalin. Þegar við förum að kafa ofan í frv. gæti okkur þótt ansi margt í réttindaskránni sjálfsagt mál og aðgengi að samfélagi okkar sem þar er farið fram á alveg sjálfsagt. Þetta aðgengi mun hins vegar aldrei opnast þeim sem tala táknmálið og eiga það að móðurmáli nema þessi réttindaskrá verði fest í lög og til þess varið þeim fjármunum sem þarf.

Að sjálfsögðu kostar það fjármuni en þeim fjármunum er ákaflega vel varið, rétt eins og öðrum fjármunum sem við verjum til, að því er okkur finnst, sjálfsagðra velferðar-, mannréttinda- og réttlætismála. Okkur þykir öllum sjálfsagt í dag að til séu sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða t.d. og sem betur hefur þeim fjölgað ef eitthvað er á síðustu árum og oftast nær, að því er manni virðist, er þetta virt. Fatlaðir eiga þar af leiðandi auðveldara með að komast í stofnanir, verslanir og að sinna erindum sínum úti um allan bæ en fyrir nokkrum árum þegar þetta var ekki viðhaft.

Eins þykir okkur öllum, eða flestum, sjálfsagt mál að í opinberum stofnunum og þar sem fólk á erindi um séu lyftur og skábrautir og allir þessir hlutir sem gera fötluðum aðgengið að þessum þætti samfélagsins kleift. Þeim væri ekki kleift að rækja erindi sín og sinna málum sjálfir ef ekki kæmu til hlutir eins og skábrautir, lyftur og fleira sem eru þess eðlis að hindrunum er rutt úr vegi fyrir þeim og þeim opnaður aðgangur að samfélaginu svo að þeir séu ekki upp á aðra komnir með allt sitt líf, þurfa ekki --- eins og fyrir mörgum væri --- að niðurlægja sig við það í hvert sinn sem þeir eiga erindi í læknisstofnun, Tryggingastofnun eða hvaðeina að þurfa alltaf að biðja aðra um hjálp. Þá kemur að þeim þætti þessa máls, eins og 1. flm. bendir hér á í sambandi við lögbundna túlkaþjónustu o.fl., að þurfa ekki að betla það út úr vinnuveitanda sínum eða hverjum öðrum sem málið viðkemur í það og það skiptið að fyrir það sé greitt. Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Líf heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu. Sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra mun eflast til muna. Þeir munu finna hvers virði það er að geta sinnt daglegum félagslegum þörfum hindrunarlaust og geta rofið þá einangrun sem hefur heft þá í langan tíma. Þeir munu geta tekið fullan þátt í atvinnulífinu. Þeir þurfa ekki lengur að ,,betla`` af t.d. vinnuveitanda að greiða fyrir þjónustu túlks á starfsmannafundum. Það styrkir sjálfsmyndina töluvert, sérstaklega á vinnustað, að vita að maður hefur sömu möguleika til launahækkana og til að vinna sig upp og heyrandi samstarfsmenn.``

Þetta er náttúrlega algjört grundvallaratriði og að því leytinu mjög sambærilegt við það sem ég var að telja hér upp áðan um aðgengi þeirra sem eiga erfitt með gang eða þurfa að nýta sér lyftur, skábrautir og hjólastóla o.s.frv., jafnsjálfsagðir hlutir. Þess vegna er svo brýnt að Alþingi samþykki þetta mál, það fái framgang hér og að sá merki tími renni upp að þessi réttindi heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra verði í lög skráð. Í framhaldi af því breyti menn svo stjórnarskrá og tryggi þessi mannréttindi heyrnarlausra þar einnig.

Ef þetta frv. næði fram að ganga væri hvers konar mismunun óheimil og ólögleg. Hér er tekið á því að það væri ekki hægt að mismuna heyrnarlausum og öðrum vegna þessa og stofnunum ríkis og sveitarfélaga gert að útvega táknmáls\-túlk þegar á þarf að halda og þegar þá þjónustu þarf að veita.

Margt annað mjög gott er lagt hérna til, t.d. að heyrnarlausir og heyrnarskertir geti fengið túlk í 20 tíma á viku til að sinna ýmsum öðrum erindum úti í bæ, einhverju sem heyrir ekki beint undir það sem kemur fram í 6. gr. frv., þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Allar stofnanir og embætti ríkis og sveitarfélaga skulu útvega táknmálstúlka sem túlka fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda sem eiga erindi við viðkomandi stofnun eða embætti vegna þjónustu eða annarra atvika.``

Mjög brýnu atriði er bætt við í 7. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta.

,,Sérhver notandi íslenska táknmálsins á rétt á a.m.k. 20 tíma endurgjaldslausri þjónustu táknmálstúlks mánaðarlega til að sinna persónulegum erindum sem ekki falla undir ákvæði 6. gr.

Daufblindir Íslendingar eiga rétt á a.m.k. tvöföldum tímafjölda skv. 1. mgr.

Notendur þjónustu táknmálstúlka eiga rétt á auknum tímafjölda samkvæmt þessari grein ef sérstaklega stendur á samkvæmt reglum sem ráðherra setur.``

Það er mjög mikilvægt að þetta sé haft með til að líf heyrnarlausra og þeirra sem nota íslenska táknmálið og eiga það að móðurmáli taki þeim stakkaskiptum sem hér er lagt upp með í þessa vegferð með þessu gagnmerka frv. Sú réttindaskrá sem er hér talin upp þarf einnig að ná fram að ganga. Einungis þannig rjúfum við þá einangrun sem heyrnarlausir hafa sjálfsagt búið við oft og tíðum og svona opnum við þeim endanlega leið inn í samfélagið okkar þannig að þeir sem eiga táknmálið að móðurmáli geti gengið að samfélaginu jafnopnu og -sjálfsögðu og við sem njótum þeirrar guðsblessunar að vera heilbrigð, búa ekki við fötlun og þurfa ekki að glíma við það á hverjum degi að komast inn í samfélagið og geta gert það sem er svo sjálfsagt. Auðugt velferðarsamfélag á okkar tímum hlýtur að gera að metnaðarmáli sínu að tryggja að allir þegnar þess hafi sama grundvallaraðgengi að samfélaginu og hér er fjallað um. Það er með ólíkindum ef svo er ekki.

Það verður fróðlegt og spennandi að heyra hvað sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa til málanna að leggja í þessari umræðu. Eins og hv. 1. flm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir gat um í upphafi fékk hún engan flutningsmann á frv. úr þeirra hópi og það er ákaflega dapurlegt ef menn leggja svona mikilvæg og merkileg mál niður eftir einhverjum flokkslínum. Það er algjörlega óboðlegt. Menn eiga að hefja sig upp fyrir hinar ámátlegu skotgrafir flokkastjórnmálanna þegar kemur að svona mikilsverðum mannréttindamálum. Þetta er ekki mál sem á að læsa inni í búri flokkastjórnmála og flokkadrátta. Þetta er mál sem á að ná víðtækri samstöðu um í þinginu og tryggja að það nái fram að ganga á þessu þingi okkur öllum til sóma sem á Alþingi Íslendinga eigum sæti. Væri mikill bragur að því ef við mundum stíga þetta risastóra skref, sérstaklega í ljósi þess hve vel er hér á málum haldið, mikil og vönduð og ítarleg vinna lögð í þetta frv. mánuðum saman.

Eins og við sem hér höfum talað á eftir 1. flm., ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, höfum sérstaklega getið held ég að fullyrða megi að þetta er óvenjulega vel unnið mál, mikið í lagt og engin feilspor að sjá. Þær upplýsingar sem okkur eru veittar hérna sem þekkjum þessi mál ekki fyrir fram nema bara eins og hver annar þegn í þjóðfélaginu eru til fyrirmyndar, hvort heldur er um mikilvægi túlkaþjónustunnar, menningu heyrnarlausra eða hversu brýnt sé að efla táknmálsfræðinámið.

Það er alveg sérpartur og þarfnast sérstakrar umræðu hvað það skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt að nægt framboð sé af fólki sem hefur réttindi til að táknmálstúlka og talar táknmál. Hér eru lagðar fram mjög athyglisverðar tillögur í því efni, hvernig hægt sé að bæta úr menntun táknmálstúlka og efla táknmálsfræðinámið. Ef þar er pottur brotinn er ekki hægt að framfylgja þeirri réttindaskrá sem er að finna í þessu frv. um að opna aðgengi heyrnarlausra að íslensku samfélagi með svo myndarlegum og, að því er mér þykir, sjálfsögðum hætti. Það er algjört grundvallaratriði að táknmálstúlkar séu menntaðir þannig að þeir uppfylli þær þarfir og að að þeim sé þannig búið að þeir geti sinnt starfi sínu, séu ekki allt of fáir og sligaðir af því að standa skil á því að túlka eins og á þarf að halda. Það er efni í aðra messu en þetta er mjög mikilvægt, merkilegt framfaramál og ég skora á Alþingi Íslendinga að veita því framgöngu.