Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:46:18 (2374)

2003-12-02 17:46:18# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. sem hér talaði, hv. 7. þm. Reykv. s., að það hefur of lítið gerst í þessum efnum. Þegar maður ber saman umræðuna sem fram fór fyrir fimm árum og þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag sjáum við samt, ekki síst með skírskotun til greinargerðarinnar sem fram kemur með þessu frv., að ýmislegt hefur áunnist.

Ég rakti það sérstaklega í ræðu minni áðan að gefnu tilefni vegna þess m.a. að ég hafði sjálfur ekki gert mér grein fyrir því, þrátt fyrir allt, hversu mikil þátttaka táknmálsins er þó orðin í samfélagi okkar. Ef maður ber þetta saman við umræðuna sem fram fór fyrir fimm árum sjáum við auðvitað að hér hefur ýmislegt gerst. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ekkert hafi gerst. Það má vel taka undir að ekki nægilega mikið hafi gerst og það má vel hugsa sér að við hefðum þurft að taka betur á en ég hins vegar ítreka það sem ég sagði áðan, ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Ég fagna því að hér hafi verið vel að verki staðið. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál og ég tel að þau orð hæstv. forsrh. sem ég vitnaði til séu mjög viðeigandi í dag.