Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:48:33 (2376)

2003-12-02 17:48:33# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið fram í máli langflestra þeirra sem töluðu hér áðan að þetta mál væri af því taginu að við ættum að reyna að hefja það upp fyrir flokkspólitískt dægurþras. Meðal annars lögðu þingmenn úr flokki hv. þingmanns á það áherslu. Ég reyndi sjálfur fyrst og fremst að nálgast málið efnislega og leggja dóm á það á grundvelli þess efnis sem til grundvallar liggur í frv. sjálfu. Mín skoðun er sú að þetta mál sé vel unnið, það sé af því taginu að það eigi að vera hægt að taka til þess efnislega afstöðu.

Ég lagði hins vegar mikla áherslu á að málið fengi vandaða meðferð vegna þess að hér er um að ræða stórmál. Alveg eins og ég vék að í upphafi er hér um að ræða tilraun til lagasetningar um heilt tungumál sem er ekki daglegt verk Alþingis. Þess vegna er það einfaldlega að mínu mati ekkert áhlaupaverk. Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði, þetta er líka langtímamarkmið sem við erum hér að vinna að. Hæstv. forsrh. sýndi jákvæðan hug sinn í verki í þeirri umræðu sem ég vakti athygli á og ég ítreka enn á ný að ég tel að í orðum hæstv. ráðherra hafi falist kjarni umræðunnar í dag.