Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:58:27 (2379)

2003-12-02 17:58:27# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., Flm. ÁI (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Flm. (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla. Hana er að finna á þskj. 485 en flutningsmenn auk mín eru þau Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Steingrímur J. Sigfússon.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Nefndin kanni m.a. eftirfarandi atriði sérstaklega:

a. hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila,

b. hvort setja beri sérstök ákvæði í lög sem tryggi fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum,

c. hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, t.d. á sviði fjármálaþjónustu,

d. löggjöf og starfsskilyrði fjölmiðla í nálægum löndum með hliðsjón af markmiði nefndarstarfsins.

Nefndin skal í störfum sínum hafa samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, menntamálaráðuneytið og aðra aðila er málið varðar. Nefndin skal hraða vinnu sinni sem kostur er og ljúka störfum með skýrslu og eftir atvikum tillögum til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``

[18:00]

Þannig hljóðar þessi tillögugrein.

Þessi till. til þál. er fram komin í framhaldi af umræðum sem spunnust á hv. Alþingi í kjölfar fyrirspurnar minnar til hæstv. forsrh. um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Í svari forsrh. mátti lesa hvatningu til þess að Alþingi léti þessi mál til sín taka og má segja að við hv. flutningsmenn þessarar tillögu höfum tekið þeirri áskorun. Það hefur vakið athygli ýmissa, og kannski sérstaklega fjölmiðlanna, að á þessari tillögu eru fulltrúar allra þingflokka annarra en þingflokks Samfylkingarinnar. Ég treysti hins vegar á stuðning þeirra við þessa tillögu þegar til kastanna kemur og vona að tillögunni samþykktri að þeir muni að sjálfsögðu taka þátt í störfum slíkrar nefndar sem yrði skipuð á Alþingi.

Þessi tillaga gerir einmitt ráð fyrir því að kosin verði nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka og kanni, sem fyrr segir, starfsumgjörð fjölmiðla og hvort styrkja megi sjálfstæði, frelsi og fjölbreytni fjölmiðla með lagaákvæðum eða með öðrum hætti.

Fjölmiðlar eru ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar og hafa mikilvægu hlutverki að gegna til þess að tryggja málfrelsi. Á fjölmiðlamarkaði þarf að ríkja fjölbreytni þannig að almenningur hafi aðgang að upplýsingum úr sem ólíkustum áttum þannig að einn eða örfáir aðilar geti ekki ráðið skoðanamótuninni.

Á haustdögum varð hér nokkur umræða um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Meðal annars var haft eftir ritstjóra eins stórveldisins á fjölmiðlamarkaðnum hér að það væri umhugsunarefni þegar viðskiptablokkir og bankar væru farnir að sækjast eftir eignarhaldi á fjölmiðlum. Formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall, sem er fréttamaður á Stöð 2 kallaði þá eftir fjölræði í fjölmiðlun, þ.e. að til væru margar fréttastofur í eigu margra ólíkra aðila. ,,Það tryggir``, sagði formaður Blaðamannafélagsins, með leyfi forseta, ,,að það sem einn miðill fjallar ekki um það fjallar einhver annar miðill um.``

En það er einmitt hlutverk löggjafans að tryggja þetta fjölræði, tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og frelsi þeirra. Í nálægum löndum hefur löggjafinn þannig reist skorður við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum með ýmsum hætti, allt eftir aðstæðum í hverju landi.

Það er þekkt bæði úr samtímasögunni og frá fyrri tíð að stórveldi í öllum heimsálfum hafa reynt að sölsa undir sig fjölmiðlaveldi, ýmist með vopnaskaki eða í gegnum löggjafarsamkundur, því að leiðin að pólitísku og efnahagslegu valdi liggur oftar en ekki í gegnum síður eða rásir fjölmiðlanna. Þannig hefur Berlusconi og fyrirtæki hans einmitt náð undir sig hátt í 90% af fjölmiðlamarkaði á Ítalíu og þykir það ekki til fyrirmyndar. Fákeppni er nefnilega hvergi verri heldur en í fjölmiðlun.

Doktor Herdís Þorgeirsdóttir sérfræðingur í þjóðarétti varði fyrr á þessu ári doktorsritgerð um frelsi fjölmiðla frá sjónarhorni mannréttinda. Niðurstöður hennar varða stöðu fjölmiðla, skyldur þeirra gagnvart almenningi og það hvernig almenningur á rétt á því að fjölmiðlar stundi ekki sjálfsritskoðun til að þóknast pólitískum hagsmunum, eigendum sínum eða markaðssjónarmiðum. Í viðtölum við doktor Herdísi hefur það komið fram sem hún leggur mikla áherslu á að samkeppnislög ein dugi ekki á fjölmiðlamarkaði, mikilvægt sé að verja ritstjórnarlegt frjálsræði fjölmiðla og til þess þurfi að setja sértækar reglur sem ganga lengra en samkeppnislögin.

Hún bendir einnig á að víðast hvar séu slíkar reglur eða lög við lýði, m.a. í Bandaríkjunum þar sem sömu aðilar mega ekki eiga bæði sjónvarp og dagblað á sama markaðssvæði fari markaðshlutdeildin yfir 45% og í Þýskalandi þar sem eignarhaldi á sjónvarpsmarkaði eru þau takmörk sett að enginn einn aðili má hafa yfir 30% markaðshlutdeild. Í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hafa háir ríkisstyrkir það yfirlýsta markmið að tryggja að fleiri en eitt dagblað lifi á markaði, þ.e. styrkir til blaðs númer tvö, eins og það er kallað. Í Noregi er eignarhald á fjölmiðlum takmarkað við þriðjungs hlutdeild á markaði en engin ákvæði eru þar um að menn megi ekki eiga bæði ljósvakamiðla og prentmiðla.

Spurningin er hvort nauðsynlegt sé að feta í þessi fótspor með einhverjum hætti og sporna með lagaákvæðum gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Er ástæða til að setja í lög ákvæði sem tryggja fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum? Það er eitt af þeim atriðum sem hefur verið gagnrýnt hvað mest í þessari umræðu í haust að eignarhald fjölmiðla sé langt í frá að vera gagnsætt.

Svo er það spurningin: Er ástæða til að takmarka möguleika markaðsráðandi aðila, til að mynda í bankastarfsemi, til eignarhalds á fjölmiðlamarkaði? Þetta eru m.a. verkefni nefndar fulltrúa þingflokkanna sem hér er gerð tillaga um og lögð á það áhersla að þessi vinna sé unnin í samráði við hagsmunaaðila.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þennan fund meira en orðið er en vænti þess, eins og ég sagði áðan, að þessari tillögu verði vel tekið í öllum þingflokkum.