Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:25:43 (2383)

2003-12-02 18:25:43# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom hér og gerði kosningabaráttuna að umtalsefni þá vil ég rifja það upp að undir lok kosningabaráttunnar virtist það á köflum sem Landssamband ísl. útvegsmanna sem hv. þm. gerði að umræðuefni stýrði ekki bara einum og ekki tveimur heldur þremur fjölmiðlum. Það var mín tilfinning sem eins af þeim stjórnmálamönnum, sem þá stóð í harðri baráttu fyrir umdeildri stefnu í sjávarútvegsmálum, að Landssamband ísl. útvegsmanna hefði ákaflega greiðan aðgang að því að koma skoðunum sínum í gegnum Morgunblaðið. Mér fannst líka sem sama LÍÚ ætti ákaflega greiðan aðgang að því að koma skoðunum sínum í gegnum ríkismiðlana. Ég spyr þess vegna, virðulegi forseti, hvort hv. þm. geti verið mér sammála um að það mundi kannski litlu skipta þegar í harðbakkann slær hvort LÍÚ ætti formlega fjölmiðil eða ekki. Eða var það reynsla hv. þm. að það skorti eitthvað á að það ágæta samband ætti kost á því að koma viðhorfum sínum til íslensku þjóðarinnar í eins hráu, ómenguðu og miklu magni og það lysti?