Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:39:20 (2388)

2003-12-02 18:39:20# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Mörður Árnason:

Forseti. Í þingflokki Samfylkingarinnar og nærsveitum hans höfum við verið að vinna að fjölmiðlamálum í haust og menn kunna að hafa greint það á hinni ágætu ræðu hv. þm. Ásgeirs Friðgeirssonar, sem þarf svo sem ekki á mikilli aukavinnu að halda til að vera fróður um fjölmiðla og fjölmiðlun. Eitt af þeim plöggum sem við höfum safnað að okkur þar er skýrsla sem nú er orðin sjö ára gömul og menn kannast kannski við, sumir, og heitir Skýrsla starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum, sem menntmrh. skipaði og skilaði af sér 1996. Þetta er nokkuð góð skýrsla, margt í henni, þó ég sé fullkomlega ósammála helstu niðurstöðum þeirra sem hana gerðu, þeim ályktunum sem þeir drógu af stöðunni. Vegna þess að hér hefur skort fulltrúa tveggja flokka í þessa umræðu, fulltrúa Sjálfstfl. og Framsfl. tel ég rétt að láta þingheim heyra og festa í þingtíðindi svolítinn kafla úr þessari skýrslu og hann er svona, með leyfi forseta:

,,Þegar litið er til þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á íslenska ljósvakamarkaðnum undanfarin ár --- og þeirrar staðreyndar að nú þegar er um að ræða nokkra samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlasviðinu í heild --- vaknar sú spurning hvort löggjafinn hér eigi að fara að dæmi margra annarra Evrópuríkja og takmarka eignaraðild að ljósvakamiðlum (fjölmiðlum) með lögum.

Ekki skal kveða sérstaklega á um takmörkun eignarhalds í ljósvakamiðlum í útvarpslögum. Þrátt fyrir aukið frelsi og grósku í ljósvakaiðnaðinum ber ekki brýna nauðsyn til þess að fylgja þeirri þróun eftir með hertum reglum um eignarhald. Þvert á móti skal leitast við að varðveita það frelsi sem lögin frá 1985 fólu í sér. Þau lög kveða á um lýðræðislegar leikreglur, tjáningarfrelsi og óhlutdrægni í starfi útvarpsstöðva. Séu þessi atriði tryggð verður hlutfall eignarhalds síður að alvarlegu vandamáli.

Þessi skoðun er og sett fram í ljósi þeirrar staðreyndar að lög af þessu tagi hafa í nágrannalöndunum oftar en ekki orsakað nokkurn glundroða. Það hefur reynst fremur auðvelt að fara í kringum slík lög, eftirlit kostnaðarsamt og þó að þeim sé ætlað að vernda athafnafrelsi og hlutleysi virðast þau stundum hafa skert athafnafrelsið á ósanngjarnan hátt og jafnvel beinst gegn einstökum aðilum.

Auk þess hefur útbreiðsla útvarpstækni og lækkun bæði stofn- og rekstrarkostnaðar dregið mjög úr sérstöðu ljósvakaiðnaðarins, sem áður var aðeins á færi stórfyrirtækja og hins opinbera. Í ljósi þessa dregur úr réttmæti þeirrar skoðunar að taka þurfi þennan rekstur öðrum og fastari tökum en annan atvinnurekstur.``

Niðurstöður í þessum kafla skýrslunnar eru þessar, með leyfi forseta, enn og aftur:

,,Ákjósanlegra er að samkeppni á ljósvakamarkaði og starfsemi ljósvakamiðla í heild lúti sömu almennu leikreglum og aðrar atvinnugreinar í landinu. Í þessu sambandi skal eignarhald og starfsemi útvarpsstöðva falla undir almenn ákvæði samkeppnislaga um einokun og fákeppni þótt ef til vill sé nauðsynlegt að aðlaga þau lög betur aðstæðum ljósvakans. Til að mynda væri mögulegt að styrkja með einhverjum hætti lagalega framkvæmd við úthlutun útvarpsleyfa þannig að stuðlað verði að fjölbreytni og samkeppni.``

Ég er ekki með því að lesa þetta upp að lýsa yfir skilyrðislausu samþykki mínu við þennan texta. Þau sjónarmið sem þarna eru sett fram eru hins vegar athyglisverð og það er ekki síður athyglisvert hverjir sátu í þeim starfshópi sem hér um ræðir, en formaður hans var Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, núverandi formaður útvarpsráðs, einn af helstu ráðgjöfum Sjálfstfl. og ráðherra hans um fjölmiðlamálefni. Aðrir í nefndinni voru Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, sem ég hygg að þá hafi verið aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar menntmrh. þá hæstv. og nú enn. Þar sat líka Páll Magnússon, sem nú er varaþingmaður og aðstoðarmaður hæstv. iðn.- og viðskrh., og ekki síst sat þar þá sléttur þingmaður en nú hæstv. menntmrh. Tómas Ingi Olrich. Og auðvitað spyr maður hvort þetta fólk og flokkar þess sé enn sama sinnis eða hvort skoðun þeirra á þessum málum hafi breyst og þá hvað hafi valdið þeirri breytingu.