Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:16:48 (2399)

2003-12-02 19:16:48# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., Flm. ÁI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilvísun, síendurtekin, í það sem ég sagði áðan um að það vissu allir þegar kemur að kosningum hver á Morgunblaðið á kannski einungis við um þá sem ekki vissu það fyrir, en menn hefðu haldið að Morgunblaðið væri það sem það segist vera að öllu jöfnu, (Gripið fram í.) víðsýnt og fjölbreytt blað, sem er reyndar að mörgu leyti rétt. Í Morgunblaðið skrifar fólk úr öllum mögulegum stjórnmálaflokkum og Morgunblaðið er að sönnu ágætisblað og ég ætla ekkert að hafa fleiri orð um það.

En það skiptir máli að almenningur viti hver á fjölmiðlana. Það var í rauninni í tilefni af því sem ég var að nefna þetta, hv. þm.