Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:28:05 (2402)

2003-12-02 19:28:05# 130. lþ. 39.19 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:28]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Hér fjöllum við um frv. til laga um breytingu á lögum um sjóntækjafræðinga. Hæstv. heilbrrh. hefur kynnt frv. Víst er að það hafa verið uppi heitar deilur á milli sjóntækjafræðinga og augnlækna um starfssvið og réttindi, hvort sjóntækjafræðingum sé heimilt að mæla sjón og afgreiða sjóntæki, linsur og gleraugu, eða hvort þeir verði eingöngu að afgreiða sjóntæki eftir fyrirmælum frá augnlækni.

Það sem við eigum að hafa í huga er að augnlæknaþjónusta eða þjónusta við sjúklinga með augnsjúkdóma, sjónskekkju eða sjóngalla af hvaða toga sem er verði ekki verri en hún er í dag. Það hefur verið ákveðinn öryggisventill fyrir alla að eiga greiðan aðgang að augnlæknum til þess að fá mælda sjón því að þeir hafa skoðað sjúklinginn með tilliti til augnsjúkdóma í leiðinni, ekki eingöngu með tilliti til sjónmælinga heldur líka með tilliti til augnsjúkdóma. Auðvitað er þetta öryggisventill sem maður horfir til, ef á að fjölga þeim starfsgreinum sem mega mæla sjón og afgreiða sjóntæki sem eru linsur og gleraugu.

Það eru auk þess vissulega miklir hagsmunaárekstrar hjá þessum tveimur starfsstéttum. Það er auðvitað verið að taka spón úr aski augnlækna með því að leyfa annarri starfsstétt að sjá um sjónmælingarnar. Því er vandmeðfarið að fara bil beggja. Báðir aðilar hafa réttmætar kröfur sem taka verður tillit til og við munum fara yfir í hv. heilbr.- og trn. Það sem mér finnst skipta miklu máli, verði þetta frv. að lögum, er að gerðar séu mjög strangar kröfur til menntunar sjóntækjafræðinga og það sé alveg ljóst eins og hér hefur verið lesið upp, hvaða einstaklingar það eru sem þeim beri að vísa til augnlækna og hefur verið gerð grein fyrir tillögu um það efni. Eins að landlæknisembættið hafi skyldu til að vera með fræðslu í gangi jafnt og þétt til almennings um áhættuþætti, og þar ber gláku og sykursýki hæst, og að leita til augnlæknis, ekki bara til sjóntækjafræðinga, þegar verið er að mæla fyrir gleraugum.

Þetta er þá nýtt verkefni sem landlæknir hlýtur að fá ef frumvarpið verður að lögum. Svo þarf auðvitað að vera gott samstarf á milli augnlækna og sjóntækjafræðinga, að virðing sé borin fyrir störfum hvorrar starfsstéttar fyrir sig og sjúklingum vísað á milli þessara aðila. Ég tel að við þurfum að skoða þetta vel í heilbr.- og trn. Það hefur greinilega mikil vinna verið lögð í þetta frv. og skýr og góð greinargerð fylgir frv. í fskj. frá landlæknisembættinu sem á örugglega eftir að verða okkur góður vegvísir við afgreiðslu þessa máls. Það sem upp úr stendur er að ef þetta verður að lögum má það ekki verða til þess að það komi niður á sjónheilsu fólks í framtíðinni.