Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:33:29 (2403)

2003-12-02 19:33:29# 130. lþ. 39.19 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:33]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þykir dauflega tekið til orða hjá hv. þm. sem um þetta mál hafa talað. Það er kannski von vegna þess að stjórnarfrumvarpið sem um er rætt er skrýtið. Ég styð þá grundvallarhugsun sem mér sýnist vera í þessu máli, að auka rétt almennings til að leita til sjóntækjafræðinga og leysa sjóntækjafræðinga, sjónmælingar og almenning undan þeirri einokun læknastéttarinnar sem hingað til hefur ríkt á þessu sviði.

Ég tel nokkuð augljóst að það þurfi ekki langskólagenginn augnlækni á ofurlaunum til að mæla sjón, leysa úr gleraugnaskorti og sjá hvort eitthvað kunni að vera að augum í fólki, að það geti sjóntækjafræðingur með tilskilda menntun auðvitað gert með því að skoða resept og greiningar sem áður hafa farið fram. Mér finnst einfalt að sjóntækjafræðingum, sem auðvitað á að gera ákveðnar menntunarkröfur til, sé falið að vísa til læknis ef eitthvað kemur upp á og að þeir hafi ákveðna ábyrgð í því efni. Ég held að þetta sé liður í að losna við það sérfræðingaveldi í heilbrigðismálum sem hefur reynst okkur dýrt og óhagkvæmt. Það er dýrt fyrir samfélagið og óþægilegt fyrir neytandann. Auðvitað verður að fara varlega og vega bætta þjónustu á móti því öryggi sem þarf að vera til staðar.

Ég skil ekki alveg þetta frv. Sennilega er hæstv. ráðherra að reyna að finna málamiðlun í orðalagi frv. Þetta er eins og með hundahaldið í Reykjavík. Það er fyrst bannað og síðan leyft í nokkurn veginn sömu setningunni. Hér segir að sjóntækjafræðingar verði að fara að tilvísun eða forskrift augnlæknis en síðan segir í næstu grein að heimila eigi ákveðnum sjóntækjafræðingum að gera ákveðna hluti. Ég tel að þetta eigi heilbrn. að skoða og snúa orðalaginu við þannig að sjóntækjafræðingar hafi ákveðinn rétt sem síðan yrði skilyrtur. Það tel ég réttara í þessu máli.

Þetta er auðvitað augljóst, maður þarf ekki að vera háskólagenginn eða langþingreyndur til að sjá að ef við erum öðruvísi en allar aðrar þjóðir á Norðurlöndum á þessu sviði þá er sennilegra að þær þjóðir hafi rétt fyrir sér en við. Hér hefur þetta tíðkast að því er ég tel vegna pólitísks styrks augnlækna og faglegs styrks og vegna þess að okkur stjórnmálamönnum er ekki nægilega tamt að taka mark á vilja neytenda og þörfum samfélagsins. Menn hlaupa hins vegar út og suður eftir hagsmunum ef þeir eru studdir einhvers konar fræðum sem menn sjá stundum ekki í gegnum.

Ég vona að nefndin taki þetta til athugunar en óska frv. góðs gengis að öðru leyti í gegnum þingið.