Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:41:53 (2406)

2003-12-02 19:41:53# 130. lþ. 39.20 fundur 341. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (tryggingaráð, skipulag TR o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, og lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Markmiðið með frv. þessu er að ljúka lagfæringum á ýmsum ákvæðum laga um almannatryggingar og um félagslega aðstoð, m.a. vegna annarra breytinga sem gerðar hafa verið á þessum og öðrum lögum á undanförnum árum. Með frv. er því að mestu lokið við að endurskoða ákvæði sem varða skipulag Tryggingastofnunar ríkisins og starfsemi. Þó verður að hafa í huga að lög um almannatryggingar og félagslega aðstoð þurfa að vera í sífelldri endurskoðun og því verkefni verður seint eða aldrei lokið.

Tryggingastofnun ríkisins gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í velferðarkerfi Íslendinga. Má geta þess að útgjöld til almannatrygginga sem Tryggingastofnun ríkisins annast námu tæpum 47 milljörðum kr. á árinu 2002. Þá veitti stofnunin rúmlega 66 þúsund manns þjónustu vegna lífeyristrygginga.

Þjónusta Tryggingastofnunar grundvallast á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð, um fæðingar- og foreldraorlof, um heilbrigðisþjónustu og lögum um sjúklingatryggingu. Viðskiptavinum lífeyristrygginga Tryggingastofnunar ríkisins hefur fjölgað um 45% frá árinu 1992. Vegna þessa þýðingarmikla hlutverks Tryggingastofnunar ríkisins er mikilvægt að hafa skýr ákvæði í lögum um starfsemi stofnunarinnar og skipulag.

Þá er jafnframt æskilegt að veita stofnuninni ákveðið svigrúm til að skipuleggja sín innri mál. Frv. er ætlað að koma til móts við þau sjónarmið. Í núgildandi lögum eru ýmis ákvæði sem kveða á um deildaskiptingu Tryggingastofnunar og hver verkefni tiltekinna deilda stofnunarinnar skuli vera. Í frv. er lagt til að þessi ákvæði verði felld brott þar sem þau samrýmast ekki núgildandi viðhorfum til þess hvað eigi að vera í lögum um innra skipulag stofnana. Telja verður eðlilegra að forstöðumaður sem ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar hafi ákveðið svigrúm til að ákveða innra skipulag og starfsemi. Starfsemin verður þó að vera innan ramma þeirra laga sem stofnunin á að starfa eftir og fjárheimilda.

Í frv. eru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum laganna sem er í samræmi við þá stefnu sem hefur verið mörkuð, að reglugerðarvald sé hjá ráðherra.

Þá gerir frv. ráð fyrir að ráðherraskipuð nefnd sem ákveður hvort sjúkratryggður einstaklingur skuli fara til meðferðar í erlendu sjúkrahúsi þegar ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp í íslensku sjúkrahúsi verði lögð niður. Nefnd þessi hefur gengið undir nafninu siglinganefnd. Núgildandi ákvæði eru orðin mjög úrelt en þar segir að ráðherra skuli skipa í nefndina tvo yfirlækna við Landspítalann, yfirlækni á Borgarspítalanum og yfirlækni við St. Jósefsspítalann á Landakoti. Ekki er lengur talin þörf á að hafa sérstaka nefnd til að gegna þessu hlutverki heldur er talið eðlilegra að Tryggingastofnun ríkisins taki ákvörðun um vistun á erlendu sjúkrahúsi. Gert er ráð fyrir að læknar stofnunarinnar gegni því hlutverki og kalli til þá sérfræðinga sem þarf hverju sinni til að meta hvort unnt er að veita þjónustuna hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá formanni siglinganefndar er í meira en helmingi tilvika enginn vafi á því hvort eða hvert eigi að senda sjúkling til meðferðar erlendis. Í öðrum tilvikum þarf að leita eftir ráðgjöf viðeigandi sérfræðilækna og er reiknað með að stofnunin geri það.

Tryggingastofnun ríkisins hefur í samvinnu við Landspítala -- háskólasjúkrahús ákveðið í nokkrum tilvikum að fá sérfræðilækna frá útlöndum til að meðhöndla sjúklinga hér á landi. Hefur þetta úrræði gefist vel og hafa stofnanirnar skipt kostnaði við slíka meðferð á milli sín. Lagt er til að heimild verði sett í lög til að greiða fyrir slíkri meðferð og má gera ráð fyrir að sjúklingar kunni því vel að geta fengið þjónustu hér á landi en þurfi ekki að sækja hana til útlanda. Gert er ráð fyrir að frv. hafi óveruleg áhrif á kostnað við rekstur Tryggingastofnunar ríkisins og lögin taki gildi þegar í stað.

Virðulegi forseti. Lög um almannatryggingar og félagslega aðstoð þurfa að vera í sífelldri endurskoðun. Ein umfangsmesta breyting sem gerð hefur verið á lögunum frá gildistöku þeirra var samþykkt á Alþingi vorið 2002. Með lögum nr. 74/2002, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni fatlaðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum. Tryggingastofnun ríkisins er að undirbúa framkvæmd nokkurra ákvæða þeirra laga sem eiga að taka gildi 1. janúar 2004. Breytingar sem gert er ráð fyrir í frv. eru orðnar mjög brýnar og yrðu í framhaldi þeirrar endurskoðunar sem farið hefur fram undanfarin ár.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.