Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:46:48 (2407)

2003-12-02 19:46:48# 130. lþ. 39.20 fundur 341. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (tryggingaráð, skipulag TR o.fl.) frv., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Frú forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Ég ætla svo sem ekki að lengja mjög tíma þingsins núna enda er þetta 1. umr. um frv. og það á eftir að vera nokkra mánuði í heilbr.- og trn. þar sem við munum skoða það nánar.

Það má kannski segja sem svo að þetta sé lokahreingerning hvað varðar t.d. tryggingaráð og ýmsar greinar í gömlu lögunum um innviði stofnunarinnar og annað sem verið er að laga til í. Uppistaðan er mjög gömul lög sem hafa kannski ekki endilega staðist það sem er að gerast í dag eins og hæstv. ráðherra benti á. Miðað við það sem ég hef verið að kynna mér er ég eiginlega sammála flestum þeim breytingum sem hérna eru lagðar til. Ég hygg hins vegar að nefndin muni skoða ýmsa fleiri þætti.

Það er eitt sem ég hef strax örlitlar áhyggjur af og það er ef við leggjum siglinganefndina af. Það sem skiptir mjög miklu máli er ef sérfræðiálit skarast, þ.e. álit sérfræðings sjúklings og síðan álit Tryggingastofnunar, upp á það að unnið sé mjög vel úr þeim málum. Kannski þurfum við þá líka að skoða áfrýjunarnefndina og við mundum eflaust gera það í nefndinni upp á það að þetta samhengi verði dálítið skilvirkara og hraðvirkara en það hefur verið. Mér finnst aðallega mikilvægt að þetta sé sjúklingavænt.

Núna er verið að breyta tryggingaráði af því að það hlutverk hefur gengið sér til húðar en ég vil að við í nefndinni skoðum hvort ekki eigi að vera stjórn yfir stjórninni í þessari stofnun og þá gætum við bara gert það og fengið álit sérfræðinga á því. Mér finnst t.d. mjög nærtækt að hugsa um Íbúðalánasjóð og fleiri slíkar stofnanir þannig að ég held að við eigum að skoða það af fullri alvöru í nefndinni að tryggingaráð geti orðið þessi stjórn stofnunarinnar sem geti tekið fyrir ýmsa innanhússþætti sem þurfa ekkert endilega að fara alla leið til ráðherra. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að skoða með mjög opnum huga, herra forseti, í nefndinni og fá svolítið hugmyndaflæði, samanburð við aðrar stofnanir og hvaða gagn slíkar stjórnir hafa gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum ekki að lengja í boðleiðum fyrir þá sem þurfa að nýta sér stofnunina. Það er aðalatriðið. Sú tilhneiging hefur verið ráðandi að færa stofnunina nær fólkinu og það er einmitt sú tilhneiging sem er hér. Það er ekki verið að lengja í boðleiðunum, það er verið að stytta þær og þétta, en við verðum alltaf að hugsa aðeins lengra. Það verður líka að vera mjög stutt fyrir skjólstæðinga og notendur stofnunarinnar.

Það er spennandi vinna fram undan í hv. heilbr.- og trn. og hlakka ég til.