Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:50:24 (2408)

2003-12-02 19:50:24# 130. lþ. 39.20 fundur 341. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (tryggingaráð, skipulag TR o.fl.) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:50]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er þetta að mestu leyti til lagfæringar og snurfus á lögum um almannatryggingar, Tryggingastofnun ríkisins, og það með tilliti til skipurits Tryggingastofnunarinnar. Að mörgu leyti er verið að færa þetta til nútímalegri stjórnunarhátta. Það er sem sé verið að sneiða hjá því að binda um of starfshætti stofnunarinnar í lög eins og er í dag. Þetta tel ég allt af hinu góða.

Eins er rétt að ráðherra setji reglugerðir og felli út heimild tryggingaráðs sem er að vísu lagt til að verði lagt niður. Ég tel rétt að reglugerðir séu alfarið á ábyrgð og í hendi ráðherra.

Hæstv. forseti. Það er búið að breyta skipuritum opinberra stofnana þannig að forstjórar stofnana heyra beint undir ráðherra. Við breyttum lögum um heilbrigðisstofnanir þannig að stjórnir þeirra hafa verið lagðar af nema hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem er eina heilbrigðisstofnunin sem enn hefur stjórn. Ég held að við höfum öll verið sammála um að miðað við umfang og eðli þeirrar stofnunar væri óráðlegt að leggja niður stjórnina. Að vísu var ég ósammála því að leggja niður stjórnirnar hjá hinum heilbrigðisstofnununum en um þetta erum við þá sammála. Og ég tel að við eigum að horfa til Tryggingastofnunar ríkisins með sama hugarfari og hafa sömu hugsun að baki hvað varðar tryggingaráð, að það verði áfram tryggingaráð eða stjórn, a.m.k. að við hlið forstjórans sé stjórn eða ráð sem er honum leiðbeinandi í ákveðnum málum og leiðbeinandi fyrir ráðherra sem setur þá reglugerðir. Ég held að miðað við umfang og eðli stofnunarinnar sé ansi einmanalegt fyrir forstjórann að vera einn á toppnum. Hann þarf eins og aðrir að hafa stjórn sér til stuðnings og ég tel að stjórn eða ráð Tryggingastofnunar eigi áfram að hafa, eins og það hefur í dag, ákveðið eftirlitshlutverk, vera fulltrúi umbjóðenda stofnunarinnar og vera til ráðgjafar fyrir forstjórann, vera ráðgefandi fyrir ráðherra og að þetta sé nefnd þótt hún hafi ekki stjórnunarlega stöðu. Þar sem forstjórinn hefur lokaorðið og heyrir beint undir ráðherra tel ég að það sé þetta sem við þurfum að skoða mjög vel í nefndinni, hvernig boðleiðirnar eru, hvernig skipuritið er og hvort ekki sé rétt að Tryggingastofnun ríkisins hafi ráð eða stjórn og hvert hlutverk hennar eigi þá að vera. Úr því að okkur þótti eðlilegt að Landspítali -- háskólasjúkrahús hefði stjórn áfram þrátt fyrir að þar væri forstjórinn alls ráðandi einstaklingur tel ég ekki síður að Tryggingastofnun ríkisins þurfi á slíkri stjórn eða ráði að halda.