Rannsóknir á setlögum við Ísland

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:10:30 (2420)

2003-12-03 14:10:30# 130. lþ. 41.1 fundur 355. mál: #A rannsóknir á setlögum við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Mig langar aðeins til þess að fara betur yfir niðurstöður rannsóknanna úti fyrir Norðurlandi sem eru í stuttu máli eftirfarandi:

1. Jarðgas sem inniheldur vott af kolagasi leitar til yfirborðs víða á söndum Öxarfjarðar.

2. Líklegt er að kolagasið sé myndað við fergingu og upphitun surtarbrands í berggrunninum undir söndunum. Staðfest er að surtarbrandslög á Tjörnesi geta gefið af sér sams konar gas.

3. Sýnt hefur verið fram á að jarðgas er til staðar í jarðlögum á botni Skjálfanda og að það leitar upp til yfirborðs á vissum stöðum. Vonir standa til að þetta gas innihaldi kolagas myndað við afgösun surtarbrands. En það hefur ekki fengist staðfest.

Olíufyrirtækjum hefur verið kynntur framgangur rannsóknanna á landgrunni Norðurlands eftir því sem tilefni hefur gefist til þannig að ég tel að stjórnvöld standi sig svona bærilega í þessu máli. Ég ítreka að þetta mál er mjög áhugavert. Maður er nú feimin við að vekja upp allt of miklar vonir en það er alveg hægt að fullyrða að ástæða er til þess að rannsaka þetta frekar. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni þá hefur iðnrn. lagt nokkra fjármuni til verksins. Eftir um það bil tvö ár á þetta mál allt að vera miklu skýrara og þá þarf væntanlega að átta sig á hvað ástæða er til þess að gera í framhaldinu.