Starfskjör á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:12:41 (2421)

2003-12-03 14:12:41# 130. lþ. 41.2 fundur 347. mál: #A starfskjör á fjármálamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Eins og flestum er kunnugt setti Kauphöllin snemma á þessu ári reglur um upplýsingaskyldu um starfskjör stjórnenda fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni. Þær áttu að taka gildi núna á miðju þessu ári. Reglur þessar lúta að því eða stærstu breytingarnar eru þær að birta á ítarlegar upplýsingar um launakjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda. Sömuleiðis á að birta ítarlegar upplýsingar um kaupréttarsamninga og sambærilega samninga æðstu stjórnenda. Þá er einnig krafist upplýsinga um óvenjulega ráðninga- og starfslokasamninga æðstu stjórnenda og samninga um lífeyrisréttindi umfram það sem venjulegt er.

Nýmæli í þessum reglum er líka að þessi upplýsingagjöf nær til einstaklinga en ekki hóps að því er varðar stjórnendurna og einnig á að birta upplýsingar um hóp annarra stjórnenda, aðra en falla undir æðstu stjórnendur sem og þóknun endurskoðenda.

Herra forseti. Þetta er allt til mikillar fyrirmyndar og hefði átt fyrir löngu að vera búið að innleiða slíka upplýsingaskyldu og gegnsæi eins og gert er með þessum reglum sem Kauphöllin hefur nú sett.

Ég hef nokkuð gengið eftir því við hæstv. viðskrh., bæði á síðasta þingi og þessu, hvort hún teldi ekki rétt að slíkar reglur væru settar um starfskjör stjórnenda lífeyrissjóða enda eðlilegt að lífeyrissjóðirnir sem eru í eigu fólks á vinnumarkaðinum eigi rétt á að fá slíkar upplýsingar og að þær séu birtar opinberlega. Hæstv. ráðherra hefur reyndar aldrei útilokað slíkt en aldrei viljað beina því til Fjármálaeftirlitsins að þeir settu sér slíkar reglur. Reyndar hef ég verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að setja slíka upplýsingaskyldu á fjármálamarkaðinn allan. Það á ekki síst við eftir að bankastjórar, forustumenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja gátu í skjóli hlutafélagalaga hreiðrað um sig með launakjör sín, kaupauka, kaupréttarsamninga og starfslokasamninga í neðanjarðarlaunakerfi stjórnenda og forstjóra sem á síðustu missirum eru einn af öðrum ásamt kvótakóngunum að fylla stækkandi hóp auðmanna landsins. Digrir starfslokasamningar, kaupaukar og kaupréttarsamningar hafa reyndar lítið hreyft við stjórnvöldum til þessa en í ljósi þeirrar veruleikafirringar sem birtist í kaupréttarsamningum stjórnenda fjármálafyrirtækja nýverið og allir þekkja er enn ástæða til að taka þetta mál upp á hv. Alþingi og beina til hæstv. ráðherra fyrirspurn um hvort vænta megi að settar verði slíkar reglur um upplýsingaskyldu um starfskjör stjórnenda á fjármálamarkaði sambærilegar þeim sem Kauphöll Íslands hefur sett fyrir kauphallarskráð félög og ef svo er, hvenær sé að vænta slíkra reglna, hvert verði inntak þeirra, til hverra þær munu ná og hvernig þær verða kynntar almenningi.