Starfskjör á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:22:01 (2426)

2003-12-03 14:22:01# 130. lþ. 41.2 fundur 347. mál: #A starfskjör á fjármálamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur skilið þetta allt saman rétt eins og hennar var von og vísa. Ef henni líður betur með að þakka sér það eða stjórnarandstöðunni að þessi mál hafa verið færð til betri vegar er það í sjálfu sér sársaukalaust fyrir mig. En ég vil halda því fram að þessi mál séu að komast í betri farveg og það er aðalatriðið og varðar líka sundurliðun á einstaklinga. Ég held að ég megi fullyrða það. (JóhS: Og kaupréttarsamningarnir ...?)

Svo að kaupréttarsamningunum. Hér var sérstaklega spurt hvernig fara skyldi með þá skattalega. Ég er treg til að opinbera mig mjög með það þar sem þessi mál heyra ekki undir mig heldur að sjálfsögðu fjmrh. en einu ákvæðin um kaupréttarsamninga sem eru í lögum í dag eru í skattalögunum. Það er það sem við höfum talað um og við höfum þegar hafið vinnu við það í viðskrn. að velta því fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til að sérstaklega sé fjallað um kaupréttarsamninga í hlutafélagalögunum. Það er eitt af þeim mikilvægu málefnum sem þarf að fjalla um og við munum eflaust fjalla frekar um það á hv. Alþingi í vetur.