Kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:27:03 (2428)

2003-12-03 14:27:03# 130. lþ. 41.3 fundur 349. mál: #A kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Norðvest., Jóhann Ársælsson, hefur beint til mín spurningum.

1. Er viðskiptaráðuneytinu kunnugt um starfshætti og umfang þeirrar kvótamiðlunar sem Landssamband íslenskra útvegsmanna rekur á eigin kostnað?

Ráðuneytinu er ekki kunnugt um umfang eða fyrirkomulag miðlunar aflaheimilda á vegum LÍÚ. Þess ber að geta að það lagaumhverfi sem snýr að aflaheimildum og framsali þeirra heyrir ekki undir viðskrn. heldur sjútvrn. Því hefur viðskrn. ekki haft sérstaka ástæðu til að afla upplýsinga um eðli eða umfang þessara viðskipta.

2. Telur ráðuneytið það standast lög að samtök hagsmunaaðila annist slíka starfsemi og láti félagsmenn greiða kostnaðinn óháð því hvort þeir nýta sér þjónustuna?

Mér er ekki kunnugt um að settar hafi verið neinar reglur varðandi það hvaða aðilar geti stundað miðlun aflaheimilda en eins og ég sagði áðan er regluverk um aflaheimildir og framsal þeirra á sviði sjútvrh. Ég vil minna á að starfsemi LÍÚ er ekki lögbundin heldur er hér um að ræða frjáls samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi. Enginn er skyldur til að vera aðili að LÍÚ. Sé einhver meðlimur samtakanna ósáttur við að félagsgjöld hans renni til rekstrar á miðlun fyrir aflaheimildir á sá hinn sami kost á að segja sig úr samtökunum eða þá að beita sér fyrir því á vettvangi þeirra að miðluninni verði hætt.

3. Ber útgerðum sem eiga í viðskiptum með aflaheimildir, sem Landssamband íslenskra útvegsmanna sér um sölu og skipti á, að skrá heildarmarkaðsverðmæti afla og aflaheimilda í bókhaldi sínu?

Lög um bókhald eru á forræði fjmrh. Viðskrn. hefur ekki upplýsingar um það hvaða reglur gilda um bókhaldslega meðferð aflaheimilda eða afla sem fenginn er fyrir milligöngu miðlunar LÍÚ.

Eins og fram hefur komið í svörum mínum verður ekki séð að efni þessarar fyrirspurnar snerti verksvið viðskrn. beinlínis. Ef hv. fyrirspyrjandi er hins vegar að spyrja um það hvort miðlun LÍÚ á aflaheimildum kunni að fara gegn samkeppnislögum er eftirfarandi til að svara:

Almennt er vandkvæðum bundið að svara því hvort einhver tiltekin starfsemi samrýmist ákvæðum samkeppnislaga eða ekki nema að undangenginni nákvæmri athugun á þeim mörkuðum sem starfsemin snertir, eðli starfseminnar og stöðu þess aðila sem hana stundar. Slíkt mat er flókið og kann að snerta margvísleg lögfræðileg og hagfræðileg álitaefni. Samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga er viðskrh. ekki ætlað það hlutverk að úrskurða um það hvað teljist í samræmi við samkeppnislög og hvað ekki. Það verkefni hvílir á herðum sérfróðra stjórnvalda, þ.e. samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar sem fara með daglega framkvæmd laganna. Það væri því tæplega við hæfi að viðskrn. setti starfsemi einhvers tiltekins aðila í þjóðfélaginu undir stækkunargler með tilliti til þess hvort starfsemi hans stæðist samkeppnislög. Telji einhver á sig hallað með starfsemi LÍÚ á viðkomandi að sjálfsögðu þess kost að beina erindi þar um til samkeppnisyfirvalda.