Kaupréttarsamningar

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:41:51 (2435)

2003-12-03 14:41:51# 130. lþ. 41.4 fundur 378. mál: #A kaupréttarsamningar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vara eindregið við því að settar verði hömlur á gerð kaupréttarsamninga þar sem þeir eru mjög mikilvægir, sérstaklega fyrir nýsköpun þar sem ekki veitir af að setja allt það hlutafé sem kemur inn í framleiðslu og markaðssetningu á þeirri vöru sem verið er að framleiða. Og til þess að fá til sín hæfa lykilmenn með reynslu og þekkingu á sviðinu, þarf að binda þá við fyrirtækið með loforði um kauprétt. Það getur verið lífsspursmál fyrir fyrirtæki í nýsköpun, sem er að byrja, að fá til sín hæfa menn og þeir fá þá hlut í hagnaðinum.

Sama á við þegar stórir fjárfestar fjárfesta í fyrirtæki sem byggir á reynslu eða þekkingu eins manns eða fleiri að þá vilja fjárfestarnir tryggja sér að sá maður eða þeir menn hoppi ekki yfir til samkeppnisaðila eftir að þeir hafa fjárfest.