Kaupréttarsamningar

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:44:04 (2437)

2003-12-03 14:44:04# 130. lþ. 41.4 fundur 378. mál: #A kaupréttarsamningar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., BÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Vegna ummæla síðasta ræðumanns, hv. 7. þm. Suðvest., vildi ég geta þess að ég gat ekki betur heyrt af ræðu hæstv. viðskrh. áðan að kaupréttarsamningar væru til athugunar í ráðuneytinu og það er í samræmi við yfirlýsingar sem komu líka fram eftir fund ríkisstjórnarinnar fyrir um tíu dögum þannig að mér finnst ummæli hv. þm. tilefnislaus hvað þetta atriði varðar. Auðvitað er rétt að skoða lagaumhverfi kaupréttarsamninga. Það er rétt að skoða hvaða reglur gilda og hvaða reglur eiga að gilda. En ég tek hins vegar undir með hv. þm. Pétri Blöndal að það er mikilvægt að möguleikinn til gerðar kaupréttarsamninga verði áfram fyrir hendi, enda geta þeir gegnt mjög veigamiklu hlutverki í uppbyggingu fyrirtækja og atvinnurekstri.