Ferðaþjónusta bænda

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:57:50 (2442)

2003-12-03 14:57:50# 130. lþ. 41.25 fundur 361. mál: #A ferðaþjónusta bænda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Önundi Björnssyni, sem og ráðherra fyrir svör hans. Hér er hreyft að minni hyggju mjög mikilvægu máli og án þess að ég sé að draga orð hæstv. ráðherra í efa hefði ég satt að segja haldið að þeir aðilar sem koma að þessari þjónustu væru miklum mun fleiri. Þegar maður keyrir um hinar dreifðu byggðir landsins sér maður svona þjónustu boðna á nánast hverju götuhorni. Ég held að það sé verk að vinna í landbrn. við að kortleggja þetta öllu nánar. Einhverjir bændur hljóta að standa fyrir utan hin hefðbundnu samtök þeirra ferðaþjónustubænda.

Ég undirstrika hins vegar að ég held að nauðsynlegt sé að skoða aðeins möguleika þeirra, sóknarfærin eru sannarlega til staðar. Við þekkjum það frá eldri tíð að menn fóru bratt inn í loðdýraræktina og í mikið óöryggi. Ég sat þennan nefndarfund Byggðastofnunar fyrir ári þegar það var mjög ofarlega á baugi að því miður hefðu allt of margir bændur lagt í of mikla fjárfestingu sem þeir ættu erfitt með að standa undir. Ég bið hæstv. ráðherra að líta til með sínu fólki.