Ferðaþjónusta bænda

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:00:17 (2444)

2003-12-03 15:00:17# 130. lþ. 41.25 fundur 361. mál: #A ferðaþjónusta bænda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi og samþingmaður minn í Suðurk., Önundur Björnsson, hreyfir hér við mikilvægu máli. Við höfum rætt fyrr á þessu þingi um alvarlega stöðu sem uppi er í sumum greinum landbúnaðarins. En það er vissulega sóknarfæri í sveitunum og víða eru hugumstórir menn að byggja upp atvinnugreinar úti á landi. Þess vegna langaði mig til að beina því sérstaklega til hv. landbrh. í ljósi þeirra orða að Flugleiðir stefndu að því að fjölga ferðamönnum til Íslands úr mig minnir 300 þús. í 600 þús. á næstu árum, sem er mikil fjölgun og hlýtur að bera með sér mörg tækifæri fyrir ferðaþjónustu í sveitum, að huga vel að stoðkerfinu við uppbyggingu ferðaþjónustunnar eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér áðan, t.d. í sambandi við virðisaukaskattinn og fleiri slíka hluti og brýna mjög að taka hressilega þar á og efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar verulega.