Frágangur efnistökusvæða

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:13:57 (2451)

2003-12-03 15:13:57# 130. lþ. 41.5 fundur 168. mál: #A frágangur efnistökusvæða# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umhvrh. fyrir svörin. Það sem vakti kannski sérstaka athygli mína í svörum ráðherra var að nú séu u.þ.b. 3.000 efnistökusvæði á landinu, en þau voru 2.300 árið 1995. Það hefur því orðið gríðarleg aukning á fjölda náma sem er í raun og veru þvert á það sem menn stefndu að með setningu náttúruverndarlaga árið 1999.

Það liggur fyrir, samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra, að 1.000 efnistökusvæði eru ófrágengin. Nú er unnið að því í samstarfi Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar að ganga frá um 40 námum á ári. Sömuleiðis er að hefjast samstarf milli Siglingastofnunar og Umhverfisstofnunar um frágang á námum sem hafa verið notaðar vegna hafnarsvæða. Það er alveg ljóst að þetta gengur allt of hægt og er ekki það átak sem hv. Alþingi ætlaði að ráðast í á sínum tíma með setningu náttúruverndarlaga. En verkið er hafið og það er kannski fyrir mestu. Við getum sagt sem svo að mjór sé mikils vísir.