Frágangur efnistökusvæða

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:15:22 (2452)

2003-12-03 15:15:22# 130. lþ. 41.5 fundur 168. mál: #A frágangur efnistökusvæða# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það kom fram í máli mínu áðan að þessar námur eru um 3 þús. talsins samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum. Það er reyndar verið að endurskoða upplýsingar um fjölda náma þannig að það er hugsanlegt að tölurnar breytist eitthvað. Það er rétt að við stefnum í rétta átt en þetta gengur ekki eins hratt fyrir sig og menn áætluðu í upphafi. En við stefnum í rétta átt.

Varðandi þessar tvær sérstöku námur í nágrenni við Reykjavík, þ.e. við Vífilsfell og Ingólfsfjall, þá vil ég segja að þær hafa verið í umræðunni um nokkurn tíma, kannski sérstaklega Ingólfsfjallið. Í þeim námum hófst starfsemin áður en lög um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi og áður en skipulagslögin komust í það form sem þau eru í nú. Þessar námur, a.m.k. Ingólfsfjallið, urðu til þegar lagaumhverfið var með allt öðrum hætti. Við höfum ekki lagaleg úrræði til þess að stöðva þetta nám. Við höfum reyndar látið skoða í ráðuneytinu hvort hægt sé að breyta t.d. lögunum um mat á umhverfisáhrifum en höfum ekki fundið lausnina enn sem komið er.

Sveitarfélögin hefðu hugsanlega fleiri kosti í þessum málum en við höfum séð þau nýta hingað til. Við höfum ekki lagaleg úrræði til að grípa þarna inn í og þess vegna eru málin í þessum farvegi. Ég er ekkert sátt við það. Ég get komið því skýrt á framfæri að ég er ekki sátt við það. En það ber einnig að hafa í huga ákveðin ákvæði eins og eignarréttarákvæði og atvinnufrelsisákvæðið í stjórnarskránni. Þetta er því mjög flókið mál.