Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:19:58 (2454)

2003-12-03 15:19:58# 130. lþ. 41.6 fundur 169. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvað líði gerð náttúruverndaráætlunar sbr. ákvæði til bráðabirgða I í náttúruverndarlögum, nr. 44/1999.

Samkvæmt 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, skal umhvrh. eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt og leggja fyrir Alþingi. Umhverfisstofnun skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofur og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar. Í ákvæði til bráðabirgða I í framangreindum lögum segir að umhvrh. skuli eigi síðar en árið 2002 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn náttúruverndaráætlun skv. áðurnefndri 65. gr.

Undirbúningur við gerð náttúruverndaráætlunar hófst árið 2000 á vegum Náttúruverndar ríkisins en árið 2001 var myndaður vinnuhópur skipaður fulltrúum Náttúruverndar ríkisins, sem nú er Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhvrn. Hópnum var ætlað það hlutverk að leggja grunn að aðferðafræði sem notuð yrði við gerð áætlunarinnar með það að leiðarljósi að uppfylla sem best ákvæði laga um náttúruvernd og alþjóðlegar skyldur Íslands á sviði náttúruverndar.

Náttúrufræðistofnun Íslands hóf í kjölfarið vinnu við að skipuleggja greiningu á tilteknum upplýsingum til að leggja mat á hvaða svæði og tegundir mikilvægt er að vernda. Náttúruverndaráætlun var í meginatriðum unnin í tveimur áföngum. Fyrst var unnin ítarleg tillaga að náttúruverndar\-áætlun á vegum Umhverfisstofnunar í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og aðrar fagstofnanir, þar sem gerð var tillaga um verndun 77 svæða sem ætti að tryggja verndun þeirra tegunda fugla og plantna sem helst eru verndar þurfi á landinu, verndun helstu flokka jarðminja, mikilvægustu birkiskóga landsins og mikilvægra vatnakerfa.

Í endanlegri tillögu Umhverfisstofnunar til umhvrh., sem ber heitið Náttúruverndaráætlun, aðferðarfræði -- Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar, er lagt til að 75 svæði verði vernduð. Tillaga Umhverfisstofnunar gefur heildarmynd af stöðu mála og hvaða svæði stofnunin telur að skoða beri til lengri tíma litið með vernd í huga.

Síðari áfangi verksins fólst í ítarlegri yfirferð tillagna Umhverfisstofnunar í umhverfisráðuneytinu og þar með mótun náttúruverndaráætlunar til næstu fimm ára fyrir tímabilið 2004--2008. Umhvrh. heimsótti og kynnti sér nær öll svæðin 75 sem er að finna í tillögum Umhverfisstofnunar og fundaði með heimamönnum um mögulega verndun þeirra. Voru það afar jákvæðir fundir og mikilvægir að mínu mati. Í kjölfar þess voru drög að náttúruverndaráætlun 2004--2008 unnin í umhvrn. sem síðan voru lögð fram til kynningar og umræðu á 3. umhverfisþingi sem haldið var 14.--15. október sl.

Samþykkt hefur verið í ríkisstjórn að leggja till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2004--2008 fyrir Alþingi. Á ég von á því að till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2004--2008 verði lögð fram á Alþingi innan skamms.