Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:36:55 (2460)

2003-12-03 15:36:55# 130. lþ. 41.7 fundur 379. mál: #A þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við getum rifist ákaflega lengi um Kyoto-samkomulagið. Það mun engu máli skipta ef það gengur eftir sem efnahagsráðgjafi Pútíns Rússlandsforseta lét eftir sér hafa. Þess vegna skiptir það öllu máli hvort eitthvað sé til í ummælum hans og hvort þau spegli viðhorf rússnesku stjórnarinnar.

Fram kom hjá hæstv. ráðherra að hún teldi að svo væri ekki. Ástæðan er sú að hæstv. umhvrh. sagði að á óformlegum fundi í morgun hefði það verið staðfest að þarna væri fyrst og fremst um persónulegar skoðanir efnahagsráðgjafa Pútíns að ræða en ekki viðhorf rússnesku stjórnarinnar. Mér finnst það ákaflega merkilegt ef maður sem gegnir svo mikilvægu hlutverki lætur slíka yfirlýsingu frá sér fara án þess hann hafi fast land undir fótum. Mig langar því til að spyrja hæstv. umhvrh. á hvaða óformlega fundi í morgun var það staðfest að efnahagsráðgjafinn hafi ekki mælt fyrir munn Pútíns Rússlandsforseta.