Færsla Hringbrautar í Reykjavík

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:50:38 (2465)

2003-12-03 15:50:38# 130. lþ. 41.8 fundur 172. mál: #A færsla Hringbrautar í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það er mála sannast að hæsv. samgrh. hefur haft miklu meiri áhuga á vegaframkvæmdum og samgöngubótum á Snæfellsnesi en í Reykjavík. Batnandi mönnum er hins vegar best að lifa. Ég vek eftirtekt á því að hæstv. ráðherra sagði að ekki mundi skorta fjármagn til að ráðast í þessar samgöngubætur þegar búið væri að bjóða þær út eftir næstu eða þarnæstu áramót. (Samgrh.: Næstu.) Ég tel mjög miklu máli skipta að þessi yfirlýsing liggi fyrir. Ég hvet hann líka til þess að skoða í framtíðinni hvort ekki sé heppilegt að beita samgöngubótum eins og jarðgöngum líka innan höfuðborgarinnar. Menn tala um Hlíðarfót. Er ekki vel íhugandi að setja hann í stokk? Sömuleiðis vil ég hvetja hæstv. ráðherra til þess að velta því fyrir sér hvort Miklabrautin sem liggur áfram austur úr og er þjóðvegur í þéttbýli sé ekki líka betur komin í stokki frá Rauðarárstíg og að Lönguhlíð.