Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:05:38 (2471)

2003-12-03 18:05:38# 130. lþ. 41.9 fundur 173. mál: #A gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hefur hann kynnt sér þetta mál vel og þekkir allvel til þess. En hv. þm. spyr hvað líði gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík.

Svar mitt er svohljóðandi:

Samráðshópur Vegagerðarinnar og borgarverkfræðings í Reykjavík skilaði skýrslu í júní sl. um helstu lausnir sem til greina eru taldar koma varðandi mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Ekki er komist að ákveðinni niðurstöðu í skýrslunni en þó má segja að mælt sé með þriggja hæða lausn sem er áætluð kosta um 3 milljarða kr. Í þeirri lausn er Miklabrautin grafin niður 3--5 m og Kringlumýrarbrautin grafin niður um 6 m undir Miklubrautina. Hringtorg fyrir alla beygjustrauma yrði efst 1--3 m yfir núverandi landhæð. Skýrslan hefur verið til umfjöllunar í skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar og mun hafa verið send hagsmunaaðilum, svo sem Strætó bs. og Kringlunni til umsagnar. Jafnframt hefur verið unnið að afkastaútreikningum fyrir mismunandi lausnir.

Tillögur um tveggja hæða mislæg gatnamót á þessum stað kosta samkvæmt áætlun um 1,5--2 milljarða kr.

Áform um frekari hönnun þriggja hæða lausnarinnar verður ekki tekin fyrr en Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa farið yfir væntanlegar umsagnir, en þess er að vænta að það liggi fyrir á næstunni. Verkhönnun og mat á umhverfisáhrifum gæti tekið 8--10 mánuði eftir að lausn hefur verið valin.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir 1,5 milljörðum kr. í gatnamótin á tímabilinu 2006--2010. Að auki var gert ráð fyrir 200 millj. kr. viðbótarfé í verkið á flýtingu framkvæmda vegna atvinnuástands, eins og hv. þm. þekkja. Eins og kom fram í svari mínu hér við fsp. um færslu Hringbrautarinnar er gert ráð fyrir fjármunum til úrbóta vegna Hringbrautar og Miklubrautar á þessu svæði og í samgönguáætluninni er gert ráð fyrir verulegum fjármunum til þessara framkvæmda. Það er alveg ljóst að hér er bæði um mikilvæga aðgerð að ræða og úr vöndu að ráða þegar þarf að taka ákvörðun um val á útfærslu þessara gatnamóta því kostnaðurinn er verulega mikill. Það þarf því að velja lausn sem tryggir öryggi og gott flæði í umferðinni en að sjálfsögðu þarf að vera samspil kostnaðar og góðra lausna.