Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:22:28 (2478)

2003-12-03 18:22:28# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum er ákaflega brýnt. Oft er talað eins og Sundabrautin sé mál Reykvíkinga en það er ekki svo. Sundabrautin er ekki síður mál þeirra sem eru staddir á landsbyggðinni og þurfa að komast á skjótan og öruggan hátt til höfuðborgarinnar. Þess vegna tel ég mikilvægt að góð sátt náist um þessa framkvæmd.

Ég vil svo segja að ég er þeirrar skoðunar að fara eigi hina svokölluðu ytri leið þó að ég hafi ekki beinlínis skoðun á því hvern hinna þriggja valkosta eigi að taka. Ég tel að frá náttúrufarslegu sjónarmiði sé það best, en það er að sönnu dýrast.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki mögulegt að flýta þessari framkvæmd og hraða henni allverulega með því að fara leið einkaframkvæmdar. Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að aðstandendur Reykjavíkurlistans allir hafa með einum eða öðrum hætti lýst því yfir að þeir væru viljugir til þess að skoða þá leið.