Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:23:41 (2479)

2003-12-03 18:23:41# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður sagði að þetta væri ekki mál Reykvíkinga einna. Málið er þó þannig að það er Reykvíkinga að ákveða vegarstæði yfir Kleppsvíkina, hvar eigi að fara og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þegar menn tala um að það taki langan tíma, þá er það fyrst og fremst þetta sem er vandamálið. Og þegar menn tala um hábrú, að það sé náttúrufarslega best, þá spyr ég: Er það eðlilegt að hengja allt þetta járnarusl 50 metrum fyrir ofan sjávarmál til að búa til einhverja brú sem er a.m.k. 3--4 milljörðum dýrari en innri leiðin sem við höfum talað um? Það er hin eðlilega leið. Hér er stórmál á ferðinni. --- Því miður hafa þeir sem vilja taka þátt í umræðunni aðeins eina mínútu.

Ég vil þó segja að lokum, virðulegi forseti, að þegar menn tala um fyrsta áfanga, þá er það rétt sem kom fram hjá hæstv. samgrh. að hér erum við að tala um áfanga yfir Kleppsvík og að svokölluðum Hallsvegi. Þannig að fyrsti áfangi er nú ekki lengri en þetta.

En ég tek undir með þeim sem hér tala, það liggur á þessari framkvæmd og við þurfum auðvitað að komast að niðurstöðu og vinna þetta verk í sátt og samlyndi, svo mikilvæg sem Sundabrautin er.