Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:27:21 (2482)

2003-12-03 18:27:21# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Það er ánægjulegt að vita til þess að vinna skuli vera hafin við mat á umhverfisáhrifum á fyrsta áfanga leiðarinnar. Ég held að það sé í sjálfu sér enginn ágreiningur um að þverun Kleppsvíkur er eingöngu fyrsti áfangi af Sundabraut en hér er um gríðarlega umfangsmikið verkefni að ræða eins og ég gat um í fyrri ræðu minni. Ég tel á sama hátt mikilvægt, ekki bara fyrir okkur Reykvíkinga, heldur líka fyrir þá sem hingað eiga leið, að þeirri framkvæmd verði hraðað sem kostur er. Ég vil í þeim efnum brýna hæstv. samgrh. til að flýta nú framkvæmdinni sem mest hann má og m.a. skoða hagkvæmni og kosti einkaframkvæmdar í þessum efnum.

Ég vil síðan þakka hv. þingmönnum fyrir þá góðu umræðu sem verið hefur í dag um samgöngumál í Reykjavík, hún er þörf og mætti verða að reglulegum viðburði hér í sölum Alþingis.