Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:28:46 (2483)

2003-12-03 18:28:46# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í ræðu sinni að Sundabrautin er ekki eingöngu mál Reykvíkinga. Þetta er meginumferðaræð framtíðarinnar vegna þeirra miklu flutninga sem eru að og frá höfuðborginni og að aðalútflutningshöfnum landsins. Hins vegar er á það að líta að huga þarf að fleiri framkvæmdum. Þess vegna er úr mjög vöndu að ráða þegar verið er að forgangsraða og því er það að við tökum til meðferðar hér samgönguáætlun. Á næsta ári verður hún til endurskoðunar og umræðu næsta haust væntanlega þegar lögbundin endurskoðun á henni fer fram. Þannig að á næsta ári verða væntanlega miklar umræður um allar þessar framkvæmdir.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort ekki mætti flýta framkvæmdinni með því að taka upp einkaframkvæmd, þ.e. fjármögnun, með því að taka gjald fyrir notkun mannvirkisins. Ég tel að það komi vel til greina að leita slíkra leiða til að hraða framkvæmdinni. En það er alveg ljóst að við þyrftum þá að horfa á leiðina alla, eins og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir vakti athygli á, það er mikill áhugi fyrir því. En þar er um feiknarlega kostnaðarsama framkvæmd að ræða sem verður auðvitað að taka tillit til.

En ég fagna þessari umræðu og heyri að ég á hér mjög marga stuðningsmenn sem vilja taka á samgöngumálum með samgrh.