Farsímakerfið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:38:45 (2486)

2003-12-03 18:38:45# 130. lþ. 41.11 fundur 221. mál: #A farsímakerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:38]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að GSM-farsímakerfið er orðið það símkerfi sem langflestir Íslendingar nota og gemsinn er orðinn það tæki sem okkur þykir sjálfsagt að hafa um hönd. Ekki veit ég hvernig hv. þm. færu að ef þeir hefðu ekki þennan gemsa sinn upp á vasann, svo sjálfsagður þykir hann. Íbúum hinna dreifðu byggða þykir einnig eðlilegt að hafa aðgang að þessu farsímakerfi og eins og hér hefur komið fram er GSM-tenging mjög mikilvæg hvað varðar atvinnustarfsemi og þá sérstaklega ferðaþjónustu.

Mér finnst ástæða til þess að líta á uppbyggingu þessa nets út frá öryggissjónarmiðum, sérstaklega á þjóðvegi 1. Ég vona að enginn þurfi að upplifa það sem ég varð fyrir, að koma að mjög alvarlegu slysi sem reyndist banaslys, þar sem ekki var hægt að ná sambandi, hvorki með GSM- né NMT-tæki.