Farsímakerfið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:42:22 (2488)

2003-12-03 18:42:22# 130. lþ. 41.11 fundur 221. mál: #A farsímakerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Afstaða þingmannsins til viðskipta er mjög sérstök. Það verður auðvitað ekkert undan því vikist að viðurkenna að við værum ekki með farsíma í vasanum, hæstv. forseti, nema vegna þess að grundvöllurinn að þeirri framleiðslu var á forsendum viðskipta. Það verður að líta á þessi mál þannig að þeir sem fjárfesta, hvaða fyrirtæki sem er, þurfa að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að fjarskiptakerfið, og ég nefndi það sérstaklega, er auðvitað partur af því að auka öryggi og bæta þjónustu, það liggur alveg ljóst fyrir. Hv. þm. getur samt ekki talað á Alþingi um þessi mál eins og það skipti akkúrat engu máli hvað hlutirnir kosta. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það verður að gera ráð fyrir því að hægt sé að standa undir uppbyggingu þessa kerfis eins og allra annarra.

Tækninni fleygir hratt fram og það er alveg ljóst að hún hjálpar okkur með þetta. Ég er sannfærður um að fjarskiptafyrirtækin munu í vaxandi mæli sjá hag sínum best borgið með því að byggja fjarskiptakerfið og farsímakerfið upp um landið allt. Stærstu viðskiptaaðilarnir gera eðlilega þær kröfur til símafyrirtækjanna að þeir geti náð símasambandi hvar sem er á landinu. Sú krafa á auðvitað að koma frá þeim sem eru að kaupa þjónustuna gagnvart símafyrirtækjunum að þjónustan sé veitt sem víðast, í þessu tilviki fyrir farsímanotkunina.

Allt ber þetta að sama brunni. Við verðum að treysta því að fjarskiptafyrirtækin sjái sér hag í að auka þjónustuna.