Nettenging lítilla byggðarlaga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:45:01 (2489)

2003-12-03 18:45:01# 130. lþ. 41.12 fundur 350. mál: #A nettenging lítilla byggðarlaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Í nýliðinni kjördæmaviku vakti það sérstaka athygli mína að nær allir fulltrúar minni sveitarfélaganna ræddu um og kvörtuðu yfir því að hafa ekki eðlilegt nútímanetsamband. Hér á ég auðvitað við almennilegt og hraðvirkt netsamband sem allir krefjast nú til dags, m.a. til að skapa jafnrétti til náms. Landsbyggðarfólk krefst þess að börn þess og unglingar sitji við sama borð og að tæknihindranir og/eða viljaleysi stjórnvalda hindri það ekki, eins og neitun Landssímans á lagningu ljósleiðara til ýmissa staða, t.d. til Raufarhafnar, er gott dæmi um, svo og að Landssíminn skuli ekki bjóða upp á ADSL-tengingar í sveitarfélögum sem hafa færri en 500 íbúa.

Íbúar lítilla byggðarlaga gera sem sé kröfu til þess að svona hraðahindranir hamli ekki menntun barna þeirra og um leið þátttöku þeirra í netvæðingunni og t.d. möguleikum þeirra sjálfra til að stunda fjarnám í heimabyggð sinni. Spyrja má hvort unglingar þeirra svæða sem ekki búa við almennilega netvæðingu og hraða hafi fengið sama undirbúning til framhaldsnáms. Ég fullyrði að svo sé ekki.

Þess vegna, virðulegi forseti, er þetta mikið jafnréttismál sem þolir ekki neina frekari bið. Hæstv. ríkisstjórn verður á einn eða annan hátt að koma með fjármagn til þessa verks, annaðhvort með því að skylda Landssímann til að koma með pening eða veita fé beint úr ríkissjóði. Er ekki Landssíminn landssími allra landsmanna?

Í Hrísey hefur verið settur upp búnaður fyrir netsamband um gervihnött sem lofar mjög góðu. Sá galli er á gjöf Njarðar að þeir sem taka tengingu verða að greiða fyrir allan stofnbúnað sjálfir og sá kostnaður var í kringum eina og hálfa milljón króna. Rekstrarkostnaður kerfisins er hins vegar athyglisverður, þ.e. aðeins um 55 þús. kr. á mánuði með þjónustusamningi sem gerir um 1.100 kr. á mánuði miðað við 50 notendur. Hríseyjardæmið sem og sú lausn sem var sagt frá í Morgunblaðinu í dag frá Grímsnes- og Grafningshreppi eru athyglisverðar nýjungar og lausnir fyrir hinar minni og dreifðu byggðir.

En hver á að borga stofnkostnaðinn? Ríkið, Landssíminn eða íbúar þessara litlu byggðarlaga? Ég er viss um hver eigi að borga það, það er ríkið eða Landssíminn. Landssíminn sér um allan stofnkostnað í stærri bæjum og ég tel að hann eigi að gera það líka í minni bæjum og fara þar með eftir jafnræðisreglu.

Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég leyft mér að leggja fram svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

1. Hvernig hyggst ráðherra tryggja íbúum sveitarfélaga með færri íbúa en 500 ADSL-tengingu við internetið nú þegar fyrir liggur að Landssíminn hyggst ekki ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar til að svo verði?

2. Hefur ráðherra látið kanna hvort netsamband um gervihnött sé hagkvæm lausn fyrir fámenn byggðarlög og ef svo er, er hann þá tilbúinn til að beita sér fyrir því að Landssíminn bjóði slíka þjónustu? Er hann ella tilbúinn til að leggja fram pening á einn eða annan hátt, Landssíminn eða ríkissjóður?