Nettenging lítilla byggðarlaga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:48:06 (2490)

2003-12-03 18:48:06# 130. lþ. 41.12 fundur 350. mál: #A nettenging lítilla byggðarlaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og þekkt er hefur þróun á sviði fjarskipta verið mjög hröð hér á landi. Stjórnvöld hafa það að meginmarkmiði að tryggja hagkvæm, aðgengileg og örugg fjarskipti. Með frelsi í fjarskiptum hafa komið fleiri fyrirtæki sem keppa á þessum markaði. Nú er hafin undirbúningsvinna við gerð áætlunar sem mun fela í sér stefnumótun á sviði fjarskipta á Íslandi fyrir árin 2004--2010. Ég geri ráð fyrir því að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að vinna að áætlun sem gert er ráð fyrir að verði lokið um mitt næsta ár. Verkefnisstjórninni er ætlað að leggja áherslu á að fá sem flest sjónarmið inn í umræðuna, bæði frá fagaðilum og leikmönnum, sem stuðli að því að ná áðurtöldum markmiðum. Þessi fsp. er því ágætt innlegg í þá vinnu.

Hv. þm. Kristján Möller spyr í fyrsta lagi: Hvernig hyggst ráðherra tryggja íbúum sveitarfélaga með færri íbúa en 500 ADSL-tengingu við internetið nú þegar fyrir liggur að Landssíminn hyggst ekki ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar til að svo verði?

Spyrja má hvort það sé hlutverk ráðherra að tryggja ADSL-tengingu. Fyrirspyrjandi spyr eins og ADSL sé eini kosturinn til internettengingar en svo er sem betur fer ekki. Í dag eru takmarkanir á því hvar hægt er að bjóða slíkar tengingar í gegnum fastlínukerfi eins og þessi sem Landssíminn rekur. Þessar takmarkanir ráðast annars vegar af fjarlægð frá símstöð, sem getur mest orðið 3,5--5 km, hins vegar takamarkast þetta af kostnaðinum við að koma upp nauðsynlegum búnaði í símstöðvunum. Landssíminn hefur metið það svo að til að þetta borgi sig þurfi sveitarfélög að hafa a.m.k. 500 íbúa eða fleiri, eða 20 notendur. Þegar hefur verið lagt í verulegar fjárfestingar af hálfu Landssímans til þess að gera þeim sem eru utan ADSL-tenginga mögulegt að tengjast netinu með ISDN-tengingu eins og lög gera ráð fyrir, og nú ISDN Plús, sem nefnt er svo, sem hentar flestum mjög vel og er verulega góður kostur fyrir alla almenna notkun þó að ekki sé um sítengingu að ræða hvað varðar ISDN.

Það mikilvæga í málinu er að á síðustu missirum hafa ný fyrirtæki verið að ryðja sér til rúms á þessum markaði. Má þar nefna til sögunnar Svar ehf. sem veitir til að mynda Hríseyingum internetþjónustu í gegnum gervihnött, Snerpu sem veitir internetþjónustu með örbylgjusambandi frá Ísafirði og eMax sem í gær opnaði fyrir háhraðanetsamband í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þessi þróun þýðir að sem betur fer hefur markaðurinn leyst þær þarfir sem eru fyrir hendi hvað varðar internetsambönd í dreifðari byggðum og það er tilhlökkunarefni að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu þessara fyrirtækja og annarra sem starfa á sama vettvangi.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hefur ráðherra látið kanna hvort netsamband um gervihnött sé hagkvæm lausn fyrir fámenn byggðarlög og ef svo er, er hann þá tilbúinn til að beita sér fyrir því að Landssíminn bjóði slíka þjónustu?

Ráðherra er kunnugt um þessa möguleika og þekkir, eins og fram kom í svari mínu hér að framan, dæmi þar sem sveitarfélög hafa farið þessa leið til netaðgangs, samanber Hrísey. Það er ljóst að stórlækkað verð á tengingum gegnum gervihnetti er að gera internetaðgang með því móti að spennandi valkosti og er þar að auki að verða samkeppnisfært við beinlínutengingar. Ráðuneytið mun fylgjast með þessari þróun sem og annarri þróun í fjarskiptum en það er ljóst að möguleikum notenda, sérstaklega á landsbyggðinni, til nettengingar er að fjölga sem betur fer.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar er ljóst að ráðherra getur ekki beitt sér fyrir því að einstök símafyrirtæki bjóði slíka þjónustu. Nú þegar er á markaði a.m.k. eitt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gervihnattatengingum og er að fóta sig í samkeppni við stærri fjarskiptafyrirtæki. Fyrirtæki sem ryðja nýjar brautir eiga skilið lof og hvatningu stjórnvalda en ekki að stjórnvöld leggi stein í götu þeirra með því að leggja eingöngu áherslu á viðskipti sem Landssíminn á að geta boðið. Landssíminn er öflugt og gott fyrirtæki sem á hins vegar að hafa getu og metnað til að sinna þessari þjónustu um allt land en við eigum að gefa nýju fyrirtækjunum, minni fyrirtækjunum, bæði hvatningu og möguleika til þess að keppa við þessi stóru fjarskiptafyrirtæki.