Gangagerð og safnvegaframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:11:34 (2501)

2003-12-03 19:11:34# 130. lþ. 41.13 fundur 363. mál: #A gangagerð og safnvegaframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Fyrirspyrjandi (Önundur S. Björnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Það er ánægjulegt að það styttist í upphaf framkvæmda við Almannaskarð og ég vil leggja á það áherslu að þar gangi allt fljótt og vel fyrir sig. Vonandi að tilboð í verkið verði á þann veg að fyrirliggjandi fjármunir dugi til að ljúka því. Ef svo reynist ekki verða, má þá treysta því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir viðbótarfjármagni til verksins þannig að það megi ganga fram með eðlilegum hætti?

Hvað safnvegina varðar og tengingu þeirra við sögufræga staði sem laða að sér ferðamenn, þá er ljóst að þar þarf að taka mun myndarlegar á málum en gert hefur verið. Vissulega er ekki hægt að gera allt í einu en ekki væri fjarri lagi að sundurliða áætlun nokkur ár fram í tímann um einstök verkefni af þeim toga og að þau lægju fyrir þannig að heimamenn og aðrir þjónustuaðilar gætu lagað starfsemi sína að þeim veruleika.

Hér eru mikilvæg mál á ferðinni sem nauðsynlegt er að gæta vel. Ef ég má grípa til eins dæmis þá sagði oddviti Rangárþings eystra mér að 3 millj. hefðu fengist frá Vegagerðinni til safnvegaframkvæmda og að 1,5 milljónir hefðu farið á einu bretti í ræsisgerð við einn veginn þannig að það var ekki mikið sem eftir var og vona ég að hæstv. samgrh. sjái sér fært að bæta úr þessu.