Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:19:18 (2504)

2003-12-03 19:19:18# 130. lþ. 41.14 fundur 222. mál: #A Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:19]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og hv. þm. Þuríður Backman í hans stað hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

1. Hver eru áform ráðherra um auknar fjárveitingar til krabbameinslækninga samkvæmt beiðni sjúkrahússins?

2. Hver eru áform um fjárveitingar til þess að auka þjónustu vegna þvagfærasjúkdóma samkvæmt beiðni sjúkrahússins?

3. Hvernig eru áætlanir ráðherra um innréttingar í suðurálmu sjúkrahússins?

4. Hvað líður áformum um frekari uppbyggingu til þess að fjölga plássum í endurhæfingu á sjúkrahúsinu?

Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 eru fjárframlög Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri aukin um rúmar 200 millj. kr., þar af 121 millj. kr. til rekstrar og 80 millj. kr. hækkun vegna launa og verðlagshækkana. Stjórnendur FSA lögðu fram tillögu um meiri hækkun fjárframlaga til nýrra verkefna, aukinnar starfsemi og viðhalds. Stjórnendum ber að forgangsraða beiðnum um auknar fjárveitingar. Stjórnendur FSA lögðu mesta áherslu á að fá hækkun á rekstrarframlagi stofnunarinnar og til að mæta auknum rekstrarkostnaði vegna reksturs segulómtækis.

Með frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 er komið til móts við þessar þarfir FSA með sérstakri hækkun á rekstrargrunni stofnunarinnar sem nemur 100 millj. kr. og hækkun framlags vegna aukins kostnaðar við rekstur segulómtækis sem nemur 21 millj. kr. Tillögur stjórnar FSA um auknar fjárveitingar til að sinna ýmsum öðrum þörfum verkefnum verða teknar til umfjöllunar við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2005. Þá verður m.a. fjallað um aukna þjónustu vegna krabbameins- og þvagfæralækninga. Óskir um aukna þjónustu og aukin fjárframlög eru hins vegar ávallt meiri en svo að hægt sé að verða við þeim öllum. Það þarf að forgangsraða því sem brýnast er hverju sinni og það hefur verið gert með þeirri tillögu sem er í frv. til fjárlaga fyrir árið 2004.

Unnið er að undirbúningi innréttingar núll-hæðar suðurálmu sjúkrahússins. Gert er ráð fyrir að innréttingu hennar verði lokið á árinu 2004. Gert er ráð fyrir að á hæðinni verði meinafræðideild, iðju- og sjúkraþjálfun ásamt aðstöðu fyrir barna- og unglingageðdeild. Áætlaður kostnaður vegna framkvæmdanna er 120 millj. kr.

Á næstu dögum mun skila áliti svokölluð framtíðarnefnd sem skipuð var á síðasta ári til að gera tillögur um uppbyggingu og skipulag húsnæðis FSA. Nefndin tekur í áfangaskýrslu sinni undir sjónarmið þeirra hópa og nefnda sem undanfarin missiri hafa skoðað húsnæðismál Fjórðungssjúkrahússins sérstaklega, þ.e. hvort skynsamlegra sé að nýta sem fyrst 2. hæð suðurálmunnar fyrir þá þætti starfseminnar sem átti að vista í svokallaðri stjórnsýsluálmu en byggja þess í stað legudeildarálmu sem tæki mið af nútímakröfum í aðbúnaði og sveigjanleika í rekstri. Framtíðarnefndin vinnur að frekari útfærslu þessarar lausnar og hvernig húsnæði sjúkrahússins muni nýtast til framtíðar með hliðsjón af þeim hugmyndum sem settar eru fram í framtíðarsýn fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Varðandi áform um endurhæfingu þá er að vænta tillögu um það í nefndaráliti framtíðarnefndarinnar.

Það kunna að vera möguleikar á að auka endurhæfingarrými í Kristnesi en til þess þarf að ganga eftir áformum um uppbyggingu öldrunarþjónustu á Akureyri. Við horfum fyrst og fremst á Kristnes í þessu sambandi til að auka endurhæfingarþjónustu enda er glæsileg aðstaða þar til þeirra hluta.