Heilsuverndarstöð Reykjavíkur

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:34:28 (2510)

2003-12-03 19:34:28# 130. lþ. 41.15 fundur 240. mál: #A Heilsuverndarstöð Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:34]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans og þann einlæga vilja sem kom þar fram um að hreyfa þessu máli áfram, koma því í ákveðinn farveg. Jafnframt þakka ég hv. þm. Þuríði Backman innlegg hennar í umræðuna. Það er ljóst að hvorki Heilsugæslan í Reykjavík, Lýðheilsustöðin né aðrir aðilar sem starfa í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar hafa fjármagn til þess að standa að endurnýjun á þessu húsnæði. Það er einnig ljóst að meðan ágreiningur er um eignarhald og skiptingu kostnaðar munu hvorki ríki né Reykjavíkurborg leggja fram fjármagn til nauðsynlegs viðhalds sem húsið þarfnast.

Ég rakst á frétt í Morgunblaðinu frá 15. október 2002. Fyrirsögn fréttarinnar var ,,Loftplötur hrynja og starfsfólk finnur fyrir óþægindum`` þannig að það er alveg ljóst að húsnæðið er komið í það ástand að ekki má bíða með frekari ákvarðanir um hver beri ábyrgð á viðhaldinu. Ég legg áherslu á að þetta er það virðulegt og fallegt húsnæði að það er ekki hægt annað en að sýna því þá virðingu að því verði viðhaldið. Ef ástæðan er enn þá ágreiningur um það hvernig framtíðarskipan hússins verður þarf að leysa úr því sem allra fyrst. Ég held að allir séu sammála um að í þessu húsnæði eigi að fara fram starfsemi í þágu heilsuverndar á Íslandi og ég hvet heilbrrh. áfram til að ganga frá þessu máli þannig að sómi sé að og að við náum að nota þetta húsnæði í þágu heilsuverndarstarfsemi.