Heilbrigðisþjónusta við útlendinga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:41:14 (2513)

2003-12-03 19:41:14# 130. lþ. 41.16 fundur 241. mál: #A heilbrigðisþjónusta við útlendinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín fyrirspurn um heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga, þ.e. hvort ég muni beita mér fyrir því að kannaðir verði möguleikar á því að selja útlendingum heilbrigðisþjónustu. Þar vísar hún m.a. til niðurstöðu Evrópudómstólsins um rétt einstaklinga á biðlistum til að leita frá heimalandi sínu til annarra ESB-landa um þjónustu sem greidd yrði af sjúkratryggingum í heimalandi viðkomandi.

Ráðuneytið hefur fylgst vel með málum þessum, bæði í gegnum samstarf sem EES-samningurinn skapar og á vettvangi annarra Evrópumála. Ljóst er að úrskurður Evrópudómstólsins hefur vakið víða athygli og hefur mikil áhrif.

Á lýðheilsudegi sem nýlega var haldinn var einnig vakin athygli á máli þessu og bent á að þarna gætu verið viss sóknarfæri fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. Ég tel því fulla ástæðu til að fylgjast áfram mjög vel með þessu máli.

Ég get upplýst samtímis að Íslendingar hafa selt útlendingum heilbrigðisþjónustu. Þar á ég m.a. við samninga okkar við grænlensku heimastjórnina um þjónustu sem Íslendingar hafa veitt í mörg ár, bæði bráðaþjónustu og einnig vissar valaðgerðir. Einnig eru yfirstandandi viðræður við Færeyinga, sem hafa sýnt mikinn áhuga, um aðgerðir á vissum sérsviðum. Aukin kostnaðargreining heilbrigðisstofnana sem stendur m.a. yfir á Landspítalanum gerir alla könnun þessara möguleika auðveldari, og ekki síst þegar niðurstaða hennar mun endanlega liggja fyrir. Sem kunnugt er er verið að vinna að DRG-kerfi á Landspítalanum sem þeir ætla sér að klára árið 2005. Ég tel hins vegar rétt að fara varlega í sakirnar í þessu máli og kanna málið frá öllum hliðum áður en farið verður af stað. Ráðuneytinu er kunnugt um að margir einkaaðilar í öðrum Evrópulöndum hafa reynt fyrir sér á þessum vettvangi en með mjög mismunandi árangri. Margir virðast hafa ofmetið þessa möguleika og fjárfestingar hafa ekki staðið undir væntingum. Þetta undirstrikar að það þarf að undirbúa allar aðgerðir í þessum málum mjög vel.

Ég tel mjög líklegt að þessir möguleikar verði einnig kannaðir á vegum þeirra sem hafa einkarekstur með höndum eða hyggja á einkarekstur. Ég tel hins vegar rétt að hin opinbera heilbrigðisþjónusta fari, eins og áður segir, varlega í sakirnar og undirbúi málið vel. Markaðssetning af þessum toga er dýr og áhætta mikil samkvæmt reynslu annarra þjóða.

Ég undirstrika þrátt fyrir þetta að það er afar mikilvægt að fylgjast vel með þessu máli og ég útiloka engan veginn að hér geti verið um framtíðarmöguleika að ræða fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og tengda þjónustu, þar á meðal t.d. ferðaþjónustuna.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurnum hv. þingmanns.