Heilbrigðisþjónusta við útlendinga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:47:03 (2515)

2003-12-03 19:47:03# 130. lþ. 41.16 fundur 241. mál: #A heilbrigðisþjónusta við útlendinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Mér er kunnugt um að hv. þm. er ákveðin og hefur mikinn metnað fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og ég vona að svar mitt verði ekki tekið á þann veg að það sé áhugaleysi á þessum málum, þetta voru almenn varnaðarorð sem ég fór með. Ég tek undir frumkvæði opinberra aðila í þessu, það er nauðsynlegt að við sýnum áhuga á frumkvæði, en ég endurtek það að við þurfum að skoða hvað hentar í þessu.

Ég er sammála því að á Íslandi eru ákjósanlegar aðstæður að mörgu leyti og sem betur fer er íslensk heilbrigðisþjónusta mjög mikils megnug, það sýnir árangurinn. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landspítala -- háskólasjúkrahús að árangur þar er betri en á breskum samanburðarsjúkrahúsum. Sem dæmi um færni íslenskrar heilbrigðisþjónustu get ég upplýst það að fyrsti líffæraflutningurinn hefur verið framkvæmdur á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi. Þar voru framkvæmd núna nýrnaskipti eins og boðað var í vor. Við höfum því tækifæri á að gera flóknustu aðgerðir og auðvitað eigum við að nýta okkur það, bæði þar sem er einkarekstur og þar sem er opinber rekstur.

Við verðum að skoða aðstæður okkar að það hafi ekki í för með sér að biðlistarnir okkar lengist. Það þarf ekki að vera en við þurfum auðvitað að hafa augun opin fyrir þeirri gagnrýni að það er val um ýmislegt annað í þessum málum heldur en þær aðgerðir sem við erum með Íslendinga á biðlistum í.

Ég endurtek það að ég er ekki áhugalaus fyrir þessum málum þó að ég hafi haft uppi almenn varnaðarorð.