Skipan löggæslumála

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:05:40 (2523)

2003-12-03 20:05:40# 130. lþ. 41.18 fundur 362. mál: #A skipan löggæslumála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:05]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Varðandi þau orð sem hv. þm. Jóhann Ársælsson lét falla vil ég segja að það er alls ekki rökbundin nauðsyn, þó að menn stækki lögregluumdæmi, að sýslumönnum fækki. Sýslumenn þurfa ekki allir að sinna sömu störfum og hægt er að skilgreina hlutverk sýslumanna á þann veg að þeir séu ekki allir lögreglustjórar, eins og er raunar í dag því að sýslumaðurinn í Reykjavík fer ekki með lögregluvald. Þannig er unnt að skilgreina inntakið í sýslumannsstörfunum á annan hátt en að þeir séu allir lögreglustjórar. Það er atriði sem þarf að huga að í þessu sambandi.

Ég vil geta þess í tilefni af ummælum hv. fyrirspyrjanda að að sjálfsögðu er ekki ætlunin að draga úr staðarþekkingu við löggæslustörf eða draga úr þeirri þjónustu sem veitt er alls staðar á landinu. En þjónustan verður að taka mið af þeim umsvifum sem eru á hverjum tíma. Ég held að stærri umdæmi og meiri sveigjanleiki í lögregluliðinu ætti að auðvelda að það sé brugðist við á skipulegri hátt en kann að vera unnt við núverandi aðstæður.

Verkefnisstjórnin hefur það hlutverk að leiða þetta starf. Í hana er ekki endilega skipað fólk með sérfræðiþekkingu eða hagsmuni sem starfandi sýslumenn eða lögreglumenn. En eins og kom fram í máli mínu er ætlunin að þessi verkefnisstjórn leiti til fagaðila, til sýslumanna og lögreglumanna og eigi við þá náið samstarf, sem og annarra sérfræðinga sem geta lagt það besta til svo að niðurstaðan verði byggð á þekkingu og reynslu þeirra sem að þessum málum koma.