Rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:11:54 (2525)

2003-12-03 20:11:54# 130. lþ. 41.19 fundur 369. mál: #A rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:11]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Spurt er: Er til rýmingar- eða björgunaráætlun fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélög ef náttúruhamfarir eða stórslys verða sem ógna lífi íbúa?

Svarið er að það er ekki til séráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið sem fjallar um rýmingar- eða björgunaráætlun. En nýlega var heimilað að almannavarnanefndir á svæðinu tækju höndum saman og mynduðu eina heild sem mun að sjálfsögðu auðvelda allt slíkt starf. Hins vegar er til á vegum almannavarna almenn viðbragðsáætlun sem fjallar m.a. um skipulagða rýmingu, flótta eða brottflutning. Til frekari skýringar skal nefnt að gerður er greinarmunur á rýmingu, flótta og brottflutningi og er hann á þennan veg:

Flótti er það kallað þegar fólk flýr skipulagslaust undan aðsteðjandi ógn eða hættu. Meginhlutverk almannavarna í slíku tilviki er að ná stjórn á atburðarásinni og beina fólkinu á ákveðnar flutningsleiðir til fyrir fram ákveðinna móttökustaða.

Rýming felst í því að lögreglustjóri í samráði við almannavarnanefnd tekur ákvörðun um að flytja fólk burt af afmörkuðu svæði innan sama byggðarlags vegna aðsteðjandi eða viðvarandi hættu eða neyðarástands.

Brottflutningur felst í flutningi fólks milli umdæma, svæða, og samkvæmt gildandi lögum um almannavarnir er það á ábyrgð ríkisstjórnar að taka ákvörðun um slíkan brottflutning. Framkvæmd og skipulag brottflutningsins er síðan í höndum ríkislögreglustjóra í samvinnu við almannavarnanefndir í brottfarar- og móttökuumdæmum.

Í sömu viðbragðsáætlun er einnig að finna kafla sem fjalla um skipulagðan viðbúnað með tilliti til hættu eða neyðarástands af völdum eldgosa, flóða, hópslysa, jarðskjálfta, mengunar, fárviðris, ofsaveðurs, skriðufalla, snjóflóða, stórbruna og sprenginga.

Á árinu 2004 er fyrirhuguð gagnger endurskoðun á hinum almennu neyðar- og viðbragðsáætlunum almannavarna undir forustu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og verður sú endurskoðun unnin í nánu samstarfi við almannavarnanefndir í landinu.

Ég vil einnig láta þess getið í þessu sambandi að í hugmyndafræðinni á bak við almannavarnir og öryggi borgaranna eru mjög skiptar skoðanir um hvernig eigi að standa að því að rýma, flytja fólk á brott eða hvað eigi að gera. Allar athuganir sýna að brottflutningur og það að fara með fólk frá heimaslóðum sínum getur jafnvel verið hættulegri aðgerð en að búa þannig um hnútana að fólk geti dvalið sem lengst á sínum eigin slóðum þar sem það þekkir best til. Í þessu er kannski of mikil einföldun að leggja einungis áherslu á rýmingar- eða björgunaráætlun sem geri ráð fyrir fyrir að fólk sé flutt á brott.

Það þarf að búa þannig um hnúta að áætlanir miði að því að unnt sé að sinna sem flestum á þeim stað sem fólkið þekkir best til og þar sem þjónustan er almennt best þegar á reynir, hvort sem unnt er að veita hana jafn vel og við venjulegar aðstæður eða ekki. Það eru slík atriði sem þarf að hafa í huga. Til alls þessa verður að taka tillit. Það er gert annars staðar þar sem fjöldi fólks býr og ég held að aðstæður hér séu síður en svo verri en víðast hvar í veröldinni þegar litið er til slíkra þátta.