Samræmt fjarskiptakerfi

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:41:47 (2541)

2003-12-03 20:41:47# 130. lþ. 41.21 fundur 368. mál: #A samræmt fjarskiptakerfi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:41]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki um hvað hv. fyrirspyrjandi er að ræða þegar hún talar um að aðilar séu að fjárfesta í dýrum tækjum. Ég átta mig ekki á því hvað það er. Vandinn er sá í þessu að sá sem rekur TETRA-Ísland hefur ekki sett upp senda nema hér á þessum stað á landinu. Það er vandamálið í þessu. Eins og ég sagði, þar standa að baki Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur og dómsmrn., lögreglan og aðrir sem hafa átt viðskipti við það fyrirtæki vilja auðvitað mjög gjarnan að það reisi senda víðar á landinu þannig að hægt sé að koma slíkum tækjabúnaði fyrir alls staðar á landinu. Það er á því sem strandar. Ég veit ekki til þess að það sé nokkur aðili að kaupa senda sem standa jafnfætis TETRA-sendunum og þeim búnaði.

Ef hv. fyrirspyrjandi hefur leyfi til þess að fá eigendur TETRA-Ísland til að auka þessa þjónustu sína með því að fjölga sendum og bjóða þá þjónustu þannig að unnt sé að veita hana víðar á landinu en við vitum nú og hér hefur verið til umræðu, þá er sjálfsagt að líta til þess. En eins og ég sagði á þetta fyrirtæki í rekstrarerfiðleikum og viðræður hafa verið af hálfu ráðuneytanna, dómsmrn. og fjmrn., við fyrirtækið á undanförnum mánuðum um það mál, hvernig væri hægt að greiða og styrkja fyrirtækið svo það gæti veitt umrædda þjónustu alls staðar á landinu. Um það snýst málið. Ég veit ekki hvaða aðilar eru að festa fé í einhverjum tækjum sem eru sambærileg við TETRA-kerfið. Ég held að það sé enginn því að ég veit ekki til þess að nokkurt kerfi geti komið í staðinn fyrir það nema menn séu farnir að líta til þriðju kynslóðar símans sem kemur hér og það sé eitthvað sem menn eru að velta fyrir sér í þessu sambandi. En þessir aðilar, þessi stóru orkufyrirtæki standa á bak við þetta fyrirtæki.