Stjórnstöðin í Skógarhlíð

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:44:04 (2542)

2003-12-03 20:44:04# 130. lþ. 41.22 fundur 370. mál: #A stjórnstöðin í Skógarhlíð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:44]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða um björgunar- og öryggismál. Þessar fyrirspurnir eru afrakstur heimsóknar í björgunarmiðstöðina í Skógarhlíðinni. Ég vil byrja á að nefna vegna ummæla hæstv. ráðherra áðan að ef það er nokkur sem getur haft áhrif á að settir verði upp sendar víðar en á höfuðborgarsvæðinu, þá ætti það að vera yfirvald öryggismála. Það er greinilegt að þetta fyrirtæki þarf stuðning til þess að koma því á og það er mjög mikilvægt. Ég tel því það vera hlutverk hæstv. ráðherra, yfirmanns öryggismála í landinu, að beita sér fyrir því.

En eitt af því sem ég spyr um til viðbótar er um reglur, lög og reglur um leitar- og björgunarþátt stjórnstöðvarinnar í Skógarhlíð. Eitt af því sem kom fram í heimsókn okkar í Skógarhlíðina, þingmanna í samgn., var að menn þar á bæ telja að reglur vanti um björgunar- og leitarþáttinn í stjórnstöðinni. Það er alveg greinilegt að mjög mörg tilvik koma upp sem heyra ekki undir almannavarnaástand. Í slíkum tilvikum gilda mjög mismunandi reglur. Leitir geta heyrt undir björgunarsveitir, þær geta heyrt undir Flugmálastjórn, undir lögreglu og þar fram eftir götunum eftir mismunandi regluverki. T.d. ef um skip er að ræða sem lendir í ógöngum heyrir það undir Landhelgisgæsluna eða Landsbjörgu á meðan það er á sjó sem er svo sem ekkert vandamál. En ef skipið rekst á sker eða rekur upp á land gilda um það lög um skipströnd og vogrek og þá er það lögreglan sem ber ábyrgð á leit og björgun.

Annað dæmi. Ef flugvélar er saknað í flugi heyrir það undir Flugmálastjórn, ef hún hefur lent á landi er það lögregla og ef hún hefur lent á sjó er það Landhelgisgæslan sem er með málið. Um þetta eru allt saman mismunadi reglur sem jafnvel getur valdið erfiðleikum í björgunar- og leitarstarfi. Ég tel að til þess að björgunarmiðstöðin geti virkað sem best þurfi að gilda um hana skýrar reglur. Norðmenn hafa t.d. séð ástæðu til að setja upp sérstök lög um leit og björgun. Þannig hafa þeir tryggt skýrar reglur um þær björgunarstöðvar og leitarstöðvar sem þar eru. Því spyr ég hæstv. ráðherra um reglurnar hjá stjórnstöðinni.

Er áformað að setja reglur um leitar- og björgunarþáttinn í starfsemi stjórnstöðvarinnar í Skógarhlíð?