Stjórnstöðin í Skógarhlíð

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:50:07 (2544)

2003-12-03 20:50:07# 130. lþ. 41.22 fundur 370. mál: #A stjórnstöðin í Skógarhlíð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:50]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. kærlega fyrir þessi svör. Ég fagna því að uppi eru áform um að setja skýrar reglur og lög um björgunarþáttinn. Það er mjög mikilvægt og tímabært og ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að björgunarstöðin í Skógarhlíð er framför frá því sem var. Þarna eru allir viðbragðsaðilar saman komnir og þegar vaktstöð siglinga verður komin þangað sem verður núna á næstunni, eins og hæstv. ráðherra nefndi, erum við komin þarna með alla á sama stað. Það sem vantar upp á er að það er ekki hægt að sinna öllu landinu og á því verður að ráða bót. Það verður að koma á þessu samræmda kerfi og beita sér í því.

Svo er það sem ég ræddi í fyrstu fyrirspurn minni, það þarf að koma á rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er alveg ljóst að hana þurfum við að hafa ef eitthvað gerist á höfuðborgarsvæðinu sem kallar á að það þurfi að rýma, annaðhvort allt svæðið eða einhver ákveðin hverfi. Þegar maður býr í landi þar sem náttúruöflin eru eins og þau eru hér þarf slíkt að vera til.

Að öðru leyti er ég ánægð með svör hæstv. ráðherra, og sérstaklega við þessari síðustu fyrirspurn, um að þarna eigi að ráða bót á skorti á reglum og fara þá yfir öll þau lög og allar þær reglur sem í dag gilda um leitar- og björgunarstörf hér á landi.