Stjórnstöðin í Skógarhlíð

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:51:52 (2545)

2003-12-03 20:51:52# 130. lþ. 41.22 fundur 370. mál: #A stjórnstöðin í Skógarhlíð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:51]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því sem fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda um það að þetta björgunarkerfi og þessi stjórnstöð næði ekki til landsins alls. Að sjálfsögðu nær það til landsins alls og þjónar því öllu. Það sem hins vegar vantar, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, er að TETRA-kerfið svonefnda nái til landsins alls. En að sjálfsögðu þjónar stöðin landinu öllu, miðstöðin er fyrir landið og miðin ef þannig má að orði komast, en TETRA-kerfið hefur ekki komið til landsins alls. Að mælast til þess við dómsmrh., sem er viðskiptavinur TETRA-Íslands og fulltrúi viðskiptavinanna sem hafa samið við TETRA-Ísland um ákveðna þjónustu og borgar þangað afnotagjald, að hann hvetji síðan þann aðila til að reisa þessa senda og standa fyrir þeim sem eru í eigu Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur finnst mér furðuleg nálgun á þessu máli. Að sjálfsögðu er viðskiptavinurinn undir það búinn að kaupa þessa þjónustu sé hún fyrir hendi en í þessu máli nær kerfið ekki nema til þessa hluta landsins og hinn öflugi aðili sem rekur kerfið TETRA-Ísland hefur ekki byggt senda annars staðar á landinu. Það er ekki hlutverk viðskiptavinarins að reisa þessa senda, heldur að æskja þess, eins og við höfum gert, við þetta fyrirtæki að það veiti þessa þjónustu á landsvísu og hafi burði til þess að gera það þannig að það gangi upp.