Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:34:00 (2552)

2003-12-04 10:34:00# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er sú að það er nauðsynlegt með hliðsjón af því að í dag fer fram síðasta umræða fjárlaga að fyrir liggi hvenær von er á því lögfræðiáliti sem efh.- og viðskn. samþykkti samhljóða að leita eftir til Lagastofnunar háskólans á umdeildu ákvæði sem tengist afgreiðslu fjárlaga, en það er ákvæði um vaxtabætur. Það eru áhöld um hvort ákvæðið stenst stjórnarskrá Íslands og það er algerlega nauðsynlegt að álitið liggi fyrir áður en við göngum til umræðunnar sem hér verður síðar í dag. Þess vegna spyr ég hæstv. forseta: Hvenær er að vænta að álitið liggi fyrir?

Ég tek eftir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., er í salnum þannig að það ætti að vera hægt að gefa Alþingi upplýsingar um það hvenær von er á þessu mikilvæga áliti. Ég tel að það sé ekki hægt að hefja 3. umr. fjárlaga kl. 13.30 í dag nema það álit liggi fyrir.