Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:37:09 (2555)

2003-12-04 10:37:09# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni að það gengur auðvitað ekki að afgreiða fjárlögin, sem eru til lokaafgreiðslu í dag, áður en þetta álit liggur fyrir. Hér er um að tefla, ef svo fer sem sterk rök eru með, að með því að skerða vaxtabætur með þeim hætti sem áformað er að þá er 600 millj. kr. fjárvöntun að því er varðar fjárlagafrv. sem á að afgreiða í dag. Ég sé því ekki að það sé a.m.k. hægt að ljúka þeirri umræðu áður en álitið liggur fyrir.

Hæstv. forseti upplýsir hér að álitið muni liggja fyrir næstkomandi mánudag, 8. desember. Nú er það svo að það var bæði fjmrn. sem leitaði lögfræðiálits og einnig efh.- og viðskn. sem leitaði álits hjá Lagastofnun Háskóla Íslands. Ég vil því spyrja, ef það mætti þá verða til þess að greiða eitthvað fyrir málinu, hvort svo standi á að það álit frá fjmrn. liggi fyrir þannig að við gætum farið yfir það í efh.- og viðskn. þó að álitið sem efh.- og viðskn. kallaði eftir liggi ekki fyrir fyrr en næstkomandi mánudag.