Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:42:47 (2559)

2003-12-04 10:42:47# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel að það sé misskilningur sem hv. þm. upplýsir hér að þessir tveir lögfræðingar hafi ætlað að hafa með sér samráð. Eins og ég skildi málið var um það talað að sá lögfræðingur sem ynni málið fyrir efh.- og viðskn. gæti byggt á þeim grunngögnum sem kæmu frá fjmrn. auk þess að leita viðbótargrunngagna ef honum sýndist svo, en auðvitað átti sá lögfræðingur að skila sjálfstæðu áliti en ekki þessir tveir lögfræðingar að skila sameiginlegu áliti, svo það liggi alveg ljóst fyrir.

En hér er það upplýst af hálfu formanns efh.- og viðskn. að hann hafi séð umrætt álit frá fjmrn. sem þýðir þá að það álit er tilbúið og liggur fyrir. Þá er það auðvitað ótækt, herra forseti, að það sé einungis formaður efh.- og viðskn. sem viti innihald þess álits. Auðvitað þurfa allir nefndarmenn í efh.- og viðskn. að sjá það álit og ég óska eftir því við formann efh.- og viðskn. að hann boði til fundar áður en umræðan hefst í dag þannig að við getum kynnt okkur innihald álitsins. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir þá umræðu sem fara á fram um fjárlögin eftir hádegi.