Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:47:05 (2562)

2003-12-04 10:47:05# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þegar fyrir lá að ráðuneytið ætlaði að fá sér lögfræðiálit á þessu máli töldu sumir nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. að það yrði ekki nægilega gott, það yrði ekki nógu hlutlaust. Þeir óskuðu eftir því að nefndin sjálf, þ.e. lögð var fram tillaga um að nefndin sjálf fengi lögfræðiálit um þetta atriði vegna þess að hún vildi fá álit sem væri algjörlega óbundið og meiri hlutinn og ég þar með talinn féllst á það.

Nú bíðum við eftir því áliti. Ég sé ekki að það hafi nokkuð upp á sig að birta álit fjmrn., sem er reyndar þess eign, (Gripið fram í.) vegna þess að menn munu ekki taka það gilt. Þeir munu bíða eftir hinu álitinu sem kemur á mánudaginn. (Gripið fram í.) Ég sé því ekki að nokkuð sé um það að ræða að sýna það álit því að það hefur ekkert upp á sig.

Varðandi samráð lögfræðinganna tveggja þá var einmitt, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti, meiningin að þeir hefðu samráð í þeim skilningi að lögfræðingur sá sem ynni við lögfræðiálit fyrir efh.- og viðskn. byggði á þeim gögnum og þeirri vinnu sem lögfræðingurinn sem fjmrn. fékk til vinnu hefði aflað sér, en að sjálfsögðu bætti hann við og að sjálfsögðu legði hann sjálfstætt mat á viðfangsefnið, sem er hvort það ákvæði sem er í frv. stangist á við stjórnarskrá eftir að Hæstiréttur felldi dóminn um öryrkjamálið núna fyrir skömmu, þ.e. sem hann felldi eftir að frv. var lagt fram og breytti þar með lagatúlkun á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. (BH: Stendur þá stjórnarskrá?)