Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:49:08 (2563)

2003-12-04 10:49:08# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., fjallaði hér um lögfræðiálit fjmrn. sem eign fjmrn. og því megi ekki birta það. Er þetta nefndarálit án hirðis eða er fjmrn. orðið fjmrn. án hirðis? Hver á fjmrn.? (ÖS: Hver vill hirða það?) Hver á þessi gögn? Auðvitað á að birta þau, virðulegur forseti.

Ég vil aðeins vekja líka athygli á því að það tók fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárln. töluvert langan tíma og það þurfti eiginlega að taka með töngum í restina ýmis gögn ofan úr heilbr.- og trmrn. og fjmrn. um hinn fræga öryrkjadóm sem nú veltur milli stjórnarflokkanna. Og enginn veit almennilega hver er að svíkja hvern.

Ég vil vekja athygli á því að það tók langan tíma að ná þessum gögnum. Það er rétt að rifja það líka upp fyrir þingheimi að það hefur tekið töluvert langan tíma að ná ýmsum gögnum frá ýmsum stofnunum á vegum ríkisins til þess að skoða við fjárlagagerðina. Þetta er kannski allt gert, virðulegi forseti, til þess að fjárlagafrv. sem menn ætla að reyna að keyra hér í gegn á morgun með 6,5 milljarða í tekjuafgang verði í fallegum jólaumbúðum fyrir þessi jól. En hvernig ætli umbúðirnar verði þegar stofnanir og aðrir fara að banka upp á með sinn fjárlagahalla? Hvernig ætli umbúðirnar verði næsta haust þegar þáverandi fjmrh. kemur með fjáraukalagafrv.? Ætli glanspappírinn verði þá ekki farinn af þessu frv., enda sýnist manni allt benda til þess að öll gögn séu falin og ekkert eigi að kalla fram ef það yrði til þess að skekkja þá mynd sem hæstv. ríkisstjórn er að draga upp með þessum jólapappírsumbúðum.